Fjárveitingar til mennta- og þróunarstofnana landbúnaðarins

Miðvikudaginn 18. október 2000, kl. 14:50:53 (738)

2000-10-18 14:50:53# 126. lþ. 13.5 fundur 94. mál: #A fjárveitingar til mennta- og þróunarstofnana landbúnaðarins# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 126. lþ.

[14:50]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. hugsjónaríka ræðu og gott efni sem hann flutti, þakka honum þann áhuga sem hann sýnir málefnum landbúnaðarins. Ég minni hann þó á að fjárlagafrv. var lagt fram og rætt fyrir nokkrum dögum þannig að fjárlög Alþingis verða afgreidd í desember. Málið hefur verið lagt í hendur þingsins, þingið fer með fjárveitingavaldið og setur endahnútinn á þessi mál.

Ég hef átt þeirri gæfu að fagna að eiga gott samstarf bæði við ríkisstjórnina og þingið og spyr að leikslokum jafnan hver staðan verður. Ég hef séð mig tilknúinn til að líta svolítið yfir farinn veg hvað hefur gerst í málefnum skólans á einhverju tímabili og ef ég fer aftur til þess tíma er við framsóknarmenn tókum við, aftur til 1994, þróun fjárlaga frá þeim tíma til 2001, til Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, Hólaskóla og Garðyrkjuskólans, kemur eftirfarandi í ljós:

Framlög til þessara stofnana hafa hækkað sem hér segir á verðlagi október 2000:

Hækkun til Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri er 14,7% á þessu tímabili, til Hólaskóla 35%, til Garðyrkjuskólans á Reykjum 18%.

Ef skoðuð eru framlög til Landgræðslunnar hafa framlög á verðlagi í október 2000 frá 1994 lækkað um 14%, hjá Skógræktinni hafa framlög lækkað um 18%, hjá Héraðsskógum hafa framlög hins vegar hækkað um 9% á umræddu tímabili. Ef skoðað er heildarframlag til Landgræðslu og Skógræktar þá er átak í landgræðslu og skógrækt og er landshlutabundin skógræktarverkefni eru reiknuð með kemur í ljós að framlög til málaflokksins hafa hækkað frá 1994 um 22%. Auðvitað er núna verið að fara í gríðarleg átök, ekki síst í Skógræktinni og landshlutabundin verkefni. Hlutverk Skógræktar ríkisins og Landgræðslu ríkisins eru breytt. Þetta eru ekki lengur framkvæmdastofnanir heldur færum við í vaxandi mæli þessi verkefni til bændanna sjálfra, skógræktarfélaganna og áhugafólksins til að sinna þeim en eigi að síður hafa þessar miklu stofnanir góðu og mikilvægara hlutverki að gegna en fyrr. Sama má segja um bændaskólana. Ég vil standa vörð um þá, styrkja þá, það skiptir landbúnaðinn og framtíðina mjög miklu hvernig til tekst á næstu áratugum.

Eins og ég sagði áðan vonast ég til að um þessi mál verði fjallað í þinginu. Ég er að vinna að ýmsum málum fyrir þessar stofnanir þannig að ég þakka allan þann góða stuðning sem kemur fram í ræðu hv. þm. og hvaðan sem þær góðu hugmyndir kunna að koma fyrir utan hitt að ég vona að ég geti lagt fram langtímaáætlun í landgræðslu á haustþinginu, frumvörp til laga um skógrækt og landgræðslu til að geta fylgt því eftir af enn meiri þrótti að þessi öflugu fyrirtæki og menntastofnanir landbúnaðarins geti siglt áfram á miklum hraða.

Ég held að ég þurfi ekki að orðlengja þetta fremur en minni á, hæstv. forseti, að auðvitað eru þessi mál eins og ég sagði í upphafi í höndum fjárln. núna þar sem sitja hinir vænstu menn og þar á meðal sá sem hóf þessa umræðu. Treysti ég þar á gott afl til stuðnings við þessar stofnanir landbúnaðarins.