Fjárveitingar til mennta- og þróunarstofnana landbúnaðarins

Miðvikudaginn 18. október 2000, kl. 15:00:41 (743)

2000-10-18 15:00:41# 126. lþ. 13.5 fundur 94. mál: #A fjárveitingar til mennta- og þróunarstofnana landbúnaðarins# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 126. lþ.

[15:00]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa ágætu umræðu. Auðvitað er það vilji þingsins sem ræður en ég þarf ekki að kvarta yfir stjórnarflokkunum hvað landbúnaðarmálin varðar. Þeir hafa stutt vel við bakið á mér í þeim efnum og við höfum náð mörgu fram. Unnið er að mörgum góðum verkefnum í þessum skólum. Framlögin hafa ekki verið skorin niður en vissulega mættu þau hækka meira á milli ára. Það eru mörg verkefni þar sem nú er verið að fara yfir og skoða þannig að ekki eru öll kurl komin til grafar.

Vinur minn, hv. þm. Ágúst Einarsson, setur alltaf upp önnur gleraugu þegar hann er í ræðustól eða sjónvarpsviðtali. Þá er hann ekki sá prúði og duggóði eða ráðagóði maður sem starfaði með mér í landbn. Þá er hann beinskeyttur og illvígur stjórnmálamaður sem fyrst og fremst er í pólitík og hikar ekki við að fara rangt með ef því skiptir eða snupra mann um aumingjaskap sem hann meinar ekkert með.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson þarf ekki að hafa áhyggjur af að hér sé um uppgjöf að ræða. Það verður kraftur í þessum málum og ég svara fyrirspurn hans síðar.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er ekki laus allra mála. Hann ber ábyrgð og það verður spurt eftir úrræðum hans. Ég tel mjög mikilvægt að hafa þingið með.

Hvað hv. þm. Jón Bjarnason á Hólum varðar, þá þakka ég honum fyrir fyrirspurnina. Hann er ofarlega enn á Hólum. Ég minnist þess þegar ég kom þangað í fyrravor þá ætlaði ég að láta mig dreyma þá nótt hetjurnar fornu, Guðmund góða, Jón Arason og Gottskálk grimma en undir morgun dreymdi mig bara Jón Bjarnason. Andi hans er því enn sterkur yfir þeim stað, og þakka ég honum fyrir þessa fyrirspurn. Hún er gott innlegg í fjárlagaumræðuna, góð brýning fyrir mig til þess að sækja enn fram eins og góður lax mót straumi.