Atvinnumöguleikar kvenna í fiskvinnslu

Miðvikudaginn 18. október 2000, kl. 15:03:16 (744)

2000-10-18 15:03:16# 126. lþ. 13.7 fundur 64. mál: #A atvinnumöguleikar kvenna í fiskvinnslu# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 126. lþ.

[15:03]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Í jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar segir í tölul. 11.1, um konur í fiskvinnslu, að skipuð verði nefnd til að safna upplýsingum um stöðu fiskvinnslunnar að því er varðar atvinnumöguleika kvenna og áhrif nýrrar tækni á atvinnugreinina og þá atvinnumöguleika. Nefndinni á að fela að afla upplýsinga um menntun þeirra kvenna sem þar starfa, félagslega stöðu þeirra og fleira þannig að hægt sé að meta möguleika þeirra til starfsþjálfunar og endurmenntunar. Þetta stendur í jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar.

Þetta er afar mikilvægt, herra forseti, vegna þess að afskaplega miklar breytingar hafa átt sér stað í sjávarútvegi. Ný tækni gerir það sífellt að verkum að færri hendur þarf við fiskvinnslu og það hefur haft mikil áhrif á stöðu kvenna víða í sjávarbyggðum. Ef til vill er heiti vélar sem notuð er í rækjuvinnslu og kölluð er kvennabani lýsandi fyrir þá þróun sem verið hefur í gangi þar sem vélar eru að taka við af mörgum höndum oft og einatt.

Það er jafnframt ljóst að atvinnumöguleikar kvenna hafa mikil áhrif á búsetuþróun og samdráttur veldur byggðaröskun. Það er þess vegna svo mikilvægt að áhrif nýrrar tækni séu skoðuð og að upplýsinga sé aflað þannig að unnt sé að meta möguleika kvennanna til starfsþjálfunar og endurmenntunar. Það er líklega virkasta aðferðin til að takast á við þær miklu atvinnuháttabreytingar sem eru að ganga yfir í sjávarútvegi og valda allt of mikilli félagslegri röskun. Ég hef þess vegna lagt fram eftirfarandi spurningar til hæstv. sjútvrh.:

1. Hefur ráðherra skipað þá nefnd sem um ræðir til að safna upplýsingum um stöðu fiskvinnslunnar að því er varðar atvinnumöguleika kvenna og áhrif nýrrar tækni á atvinnugreinina?

2. Liggur eitthvað fyrir af þeim upplýsingum sem nefndin átti að afla svo hægt væri að meta möguleika kvenna í fiskvinnslu til starfsþjálfunar og endurmenntunar?

Herra forseti. Eins og ég gat um er þetta afskaplega mikilvægt ákvæði, ef ríkisstjórninni er einhver alvara með að takast á við þessar breytingar með skapandi hætti, einhver alvara í því að styðja við fólk sem vill búa áfram úti á landi, þá er mjög nauðsynlegt að kannanir eins og þessi og úrræði í framhaldinu liggi fyrir.