Hrefnuveiðar

Miðvikudaginn 18. október 2000, kl. 15:14:16 (750)

2000-10-18 15:14:16# 126. lþ. 13.8 fundur 65. mál: #A hrefnuveiðar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 126. lþ.

[15:14]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Fyrri fyrirspurnin er um hvaða fimm ár voru flestar hrefnur veiddar hér á landi og hversu margar þær voru hvert ár.

Árið 1982 voru veidd 212 dýr, 1983 204, 1979 202, 1980 201 og 1981 200 dýr.

Síðan er spurt: Hve margar hrefnur er talið að veiða þyrfti árlega til að um það munaði í lífríkinu vegna fæðuvals þeirra?

Óskað var eftir mati Hafrannsóknastofnunarinnar á spurningunni. Í svari stofnunarinnar, sem hefur verið dreift til upplýsingar, kemur m.a. fram að hrefna sé mjög mikilvægur hluti vistkerfisins á landgrunninu. Samkvæmt bestu áætlunum sé heildarneysla hrefnustofnsins við Ísland um 2 millj. tonna, þar af ein millj. tonna af fiski. Þá segir að rannsóknir bendi til að hrefnustofninn hér við land sé nálægt upprunalegri stofnstærð, hámarksstofnstærð. Við slíkar aðstæður sé afrakstursgeta stofnsins lítil og því líklegt að veiðar í svipuðum mæli og á árunum fyrir hvalveiðibann, um 200 dýr árlega, hefðu strax nokkur áhrif á stofnstærðina eða hömluðu a.m.k. gegn frekari stækkun stofnsins.

[15:15]

Hefjist hrefnuveiðar á ný hafi verið gert ráð fyrir reglubundinni vöktun stofnsins sem hluta stjórnkerfisins sem miði að því að stýra stofninum í þá stærð sem gefur hámarksafrakstur til langs tíma litið, þ.e. við 60--70% af upprunalegri stofnstærð.

Fjölstofna athuganir benda til þess að vöxtur hrefnu-, langreyðar- og hnúfubaksstofns við landið úr um 70% upphafsstofnstærðar í 100% leiði til þess að afrakstur þorskstofns minnki um allt að 20%. Samkvæmt þessum athugunum vegi hrefnan langmest í þessu tilliti. Því megi ætla að breytingar á stærð hrefnustofnsins úr 90% í 60--70% af upphaflegri stærð séu líklegar til að hafa veruleg vistfræðileg áhrif, þar með talið á aukna afrakstursgetu þorskstofnsins.

Í nánari skýringum Hafrannsóknastofnunar kemur m.a. fram að nýleg úttekt NAMMCO bendi til að hrefnustofninn hér við land sé yfir 90% af upphaflegri stofnstærð og hafi samkvæmt því ekki mikla vaxtarmöguleika ef gert er ráð fyrir því að upphafleg stofnstærð sé föst óbreytanleg stærð. Það sé hins vegar ekki líklegt, t.d. virðist hnúfubaksstofninn þegar vera kominn yfir upphaflega stofnstærð án þess að sjáanleg merki séu um að hægt hafi á vexti stofnsins sem hefur verið 10--15% undanfarna áratugi. Ef hrefnustofninn sé hins vegar við burðarmörk vistkerfisins megi líta svo á að áhrifin séu þegar komin fram sem hluti af náttúrulegri dánartíðni þorsks. Í því tilfelli mundi endurupptaka hrefnuveiða, sem miðast við að halda stofninum í þeirri stærð sem gefur hámarksafrakstur, 60--70% af upphaflegri stofnstærð, líklega hafa svipuð hlutfallsleg áhrif og áður getur.

Undanfarin ár hefur Hafrannsóknastofnunin lagt til að hrefnuveiðar takmarkist við 250 dýr á ári komi til endurupptöku hvalveiða hér við landi. Þessi ráðgjöf byggir á nýlegri úttekt vísindanefndar NAMMCO á ástandi mið-Norður-Atlantshafsstofnsins, hrefnu, sem grundvallast á aðferðum sem þróaðar hafa verið innan Alþjóðahvalveiðiráðsins. Samkvæmt þessari úttekt mundi stofninn minnka nokkuð fyrst í stað við slíkt veiðiálag, enda er almennt talið að afrakstursgeta hvalastofna sé lítil við hámarksstofnstærð.