Hrefnuveiðar

Miðvikudaginn 18. október 2000, kl. 15:17:58 (751)

2000-10-18 15:17:58# 126. lþ. 13.8 fundur 65. mál: #A hrefnuveiðar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., GAK
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 126. lþ.

[15:17]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn og svör hæstv. sjútvrh. Þannig er með hrefnuna að hún er sú hvalategund af miðstærðarhvölum og stærri hvölum öðrum en smáhvölunum, sem heldur sig mest á grunnslóðinni. Hún sækir inn á firði og flóa og sækir mjög sterkt í sömu lífkeðju og uppvaxandi fiskar. Það hefur sérstaklega komið fram nýverið að fiskstofnar, sérstaklega þorskur, hafa leitað inn á firði og flóa norðanlands sér til uppvaxtar og viðurværis og fara einmitt inn á sömu slóðir og stór hluti hrefnustofnsins leitar. Ég held því að það sé einboðið að hrefnustofninn hafi veruleg áhrif á lífríkið hér við land.