Hrefnuveiðar

Miðvikudaginn 18. október 2000, kl. 15:21:03 (754)

2000-10-18 15:21:03# 126. lþ. 13.8 fundur 65. mál: #A hrefnuveiðar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 126. lþ.

[15:21]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hér liggja fyrir. Það er afskaplega vel til fundið hjá honum að dreifa þessu svari vegna þess að það er efnismikið og mikilvægt innlegg í þá umræðu sem farið hefur fram og fer ugglaust fram áfram um hugsanlegar hvalveiðar okkar Íslendinga.

Það er ljóst að hér koma fram alveg nýjar upplýsingar vegna þess að fram til þessa hafa menn talið að það þyrfti að veiða allt að 1.500 dýr til þess að þess sæi stað í lífríkinu. Hér kemur hins vegar fram samkvæmt nýjum rannsóknum, og ég treysti því að vísindamenn okkar leggi til grundvallar það sem nú er best vitað um þessa hluti, að það mundi þegar breyta miklu eða muna um það að við veiddum ámóta mörg dýr og við gerðum fyrir hvalveiðibann, þ.e. rétt um 200 dýr árlega. Þetta eru alveg nýjar upplýsingar, herra forseti, og munu ugglaust hafa áhrif á alla umræðu hér og ákvarðanatöku um það hvort menn eru tilbúnir til að hefja hvalveiðar eða ekki.

Það er ljóst samkvæmt þeim upplýsingum sem hér koma fram að stofninn mundi strax minnka nokkuð jafnvel þó menn hæfu einungis veiðar á 250 dýrum eins og Hafrannsóknastofnun hefur lagt til á undanförnum árum. Herra forseti. Hér er um algjörlega nýjar upplýsingar að ræða, upplýsingar sem ekki hafa komið fram áður. Eins og ég segi þá þakka ég hæstv. ráðherra fyrir að leggja þær fram með þessum hætti vegna þess að ég met það svo að þetta gagn sem hér liggur fyrir, svarið frá Hafrannsóknastofnun, sé býsna mikilvægt innlegg í umræðuna.