Skattlagning söluhagnaðar af hlutabréfum

Miðvikudaginn 18. október 2000, kl. 15:33:50 (759)

2000-10-18 15:33:50# 126. lþ. 13.6 fundur 36. mál: #A skattlagning söluhagnaðar af hlutabréfum# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 126. lþ.

[15:33]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Mér finnst nauðsynlegt að það komi fram í umræðunni að nú þegar liggur fyrir þinginu frv. frá þingmönnum Samfylkingarinnar þess efnis að þau ákvæði, sem heimila þessa frestun, verði felld út úr lögunum um tekjuskatt og eignarskatt.

Í fyrravor þegar fjallað var um sjávarútvegsmál á Alþingi lýstum við því yfir að við værum að undirbúa slíkt mál og lögðum síðan málið fram núna í haust, þ.e. mál 27.

Það er rétt og það er gott að það kemur fram hjá hæstv. ráðherra að þessi lög hafa greinilega ekki náð þeim tilgangi sem ætlað var, e.t.v. vegna þess að þau ná líka til erlendra félaga en væntanlega var ekki hægt að komast hjá því vegna samninga okkar og EES þannig að auðvitað þarf að leita annarra leiða ef menn vilja fara þær leiðir að reyna að styrkja íslenskt efnahagslíf og þá aðrar leiðir en þær sem svo stórfellt skattfrelsi hefur í för með sér.

Ég hef skilið það svo, herra forseti, að mál okkar verði á dagskrá á morgun og þá gefst tilefni til frekari umræðu sem ég vænti að hæstv. ráðherra taki þá þátt í.