Skattlagning söluhagnaðar af hlutabréfum

Miðvikudaginn 18. október 2000, kl. 15:35:12 (760)

2000-10-18 15:35:12# 126. lþ. 13.6 fundur 36. mál: #A skattlagning söluhagnaðar af hlutabréfum# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 126. lþ.

[15:35]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég þakka bæði fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég held að verið sé að víkja að mjög merkilegu máli sem þarf að taka á. Ég get staðfest það sem ráðherra sagði að ekki var ætlunin að þetta mundi leiða til fjárflótta eins og raunin hefur hugsanlega orðið á, þegar lögin voru sett, heldur til að efla íslenskan hlutabréfamarkað. Hvora leið verður farið, hvort heimildin verður þá takmörkuð við kaup á erlendum hlutabréfum sem er kannski ekki auðveld aðkomu heldur, það að taka með afgerandi hætti á skattaparadísarleiðum eða flótta er mjög mikilvægt mál og hér hefur verið bent á að það liggur fyrir frv. sem tekur sérstaklega á þessu máli. Ég hvet, herra forseti, til þess að þetta verði rætt ítarlega í tengslum við frv. þingmanna Samfylkingarinnar en það er þó mjög jákvætt að hér hefur komið fram að seinni hlutinn í fyrirspurninni verður einmitt framkvæmdur, þ.e. þessara upplýsinga verður aflað. Það tel ég vera mjög jákvætt að verði gert þannig að við getum rætt ítarlegar um málið síðar.