Umgengni um nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 10:34:49 (770)

2000-10-19 10:34:49# 126. lþ. 14.1 fundur 119. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast) frv., sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[10:34]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 57 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum. Í frv. felst að Fiskistofu er í ákveðnum tilvikum heimilað að setja eftirlitsmenn um borð í veiðiskip á kostnað útgerðar. Miðað er við að afli tiltekins skips að einhverju leyti skeri sig úr afla einhverra annarra skipa sem sambærilegar veiðar stunda og því ástæða til að ætla að fiski hafi verið hent fyrir borð. Ástæða brottkasts er sú að viðkomandi útgerð eða áhöfn telur ekki hagkvæmt að hirða fisk. Getur það stafar af því að fiskur er verðlítill, t.d. smár eða lélegur að gæðum, eða því að báturinn hefur ekki aflaheimild til tiltekinnar tegundar og telur óhagkvæmt að veiða hana eða nýta heimild laganna til færslu milli tegunda.

Samkvæmt gildandi lögum um veiðar í lögsögu Íslands er Fiskistofu heimilt að setja eftirlitsmenn um borð í hvaða fiskiskip sem er. Hins vegar eru það aðeins útgerðir frystitogara sem greiða sérstaklega fyrir veru eftirlitsmanna um borð. Rík ástæða er til að efla verulega möguleika Fiskistofu til eftirlits með brottkasti og þyngja viðurlög fyrir slík brot, en sönnunarbyrði í slíkum málum hefur reynst afar erfið. Verði frv. að lögum er staða Fiskistofu til eftirlits mun sterkari til að fylgjast nánar með veiðum tiltekinna skipa, þyki ástæða til þess. Eftir sjö daga um borð í skipi ætti að jafnaði að liggja fyrir hvort veiðar skipsins séu í samræmi við gildandi reglur en telji Fiskistofa ástæðu til að kanna veiði báts um lengri tíma yrði það gert á kostnað útgerðar hans. Ráðuneytið er þess fullvisst að slíkt fyrirkomulag gæti orðið til að efla mjög allt eftirlit Fiskistofu auk þess sem slík heimild hefði veruleg varnaðaráhrif.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni umræðu verði frv. vísað til sjútvn.