Umgengni um nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 10:58:11 (774)

2000-10-19 10:58:11# 126. lþ. 14.1 fundur 119. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[10:58]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. viðurkenndi að menn ganga öðruvísi um miðin í dag en þeir gerðu áður og það er náttúrlega fyrsta skrefið. Sjómenn sýna það fyrst og fremst með því að hafa fækkað veiðarfærum eins og netum í sjó, veiðarfærum sem þeir gátu ekki annað, af því það voru svo mörg net að ... (SvH: Þingmaðurinn veit ekkert um hvað hann er að tala.) Ég veit nákvæmlega um hvað ég er að tala, hv. þm. Sverrir Hermannsson. Ég hugsa að ég viti það mun betur en hv. þm. sjálfur. Ég hef ekki heyrt um að hv. þm. hafi verið á netaveiðum eða smáfiskaveiðum eða á veiðum yfirleitt.

En ég ætla mér að mótmæla því að þær aðferðir, sem verið er að kynna, geti ekki haft tilætluð áhrif. Það er viðurkennt í auðlindanefnd, sem gerði sérstaka úttekt á þessu, að brottkast afla er ekki eins mikið vandamál og menn hafa viljað vera láta og alls ekki sé hægt að segja að brottkast afla sé vegna kvótakerfisins sjálfs. Mér finnst margt hafa komið fram í þeirri umræðu sem hefur skapast um skýrsluna sem bendir okkur á að kvótakerfið er kannski aðferð sem hægt er að nota til þess að prjóna við virkt eftirlitskerfi sem leiðir til þess að umgengni um fiskimiðin verði með þeim sóma sem við viljum allir. Ég heyrði eftir þá umræðu sem varð í sumar, þegar sjómenn voru að koma og lýsa því yfir að afla hafi verið hent, að þeim fannst það öllum leiðinlegt og þeir vilja allir ganga þannig um miðin að sómi sé að.