Umgengni um nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 11:59:24 (785)

2000-10-19 11:59:24# 126. lþ. 14.1 fundur 119. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast) frv., EOK
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[11:59]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Þetta frv. er hluti umræðu sem lengi hefur verið í gangi í þjóðfélaginu og hófst raunverulega þegar núverandi fiskveiðistjórnarkerfi komst á. Þær deilur hafa staðið ansi lengi og eru kannski ekki mjög frjósamar alltaf. Mig langar hins vegar að fara aðeins yfir þetta. Þegar við settum á þetta fiskveiðistjórnarkerfi sem við búum núna við, þ.e. aflakvótakerfið, komu upp miklar efasemdir um það í þjóðfélaginu.

[12:00]

Skoðun mín er sú að það liggi fyrir að þetta magnkerfi eða kvótakerfi gangi ágætlega í uppsjávarfiskum, þ.e. þar sem við erum að veiða einsleita fiska eins og loðnu, síld, makríl, spærling og eitthvað fleira. Það hefur sýnt sig að þetta gengur ágætlega. Það hefur sýnt sig að sóunin er mjög smávægileg og þetta gengur mjög eðlilega fyrir sig. Þarna virðast hvergi vera árekstrar.

Hins vegar virðist vera alveg öfugt upp á tengingnum þegar við komum að botnfiskinum, þ.e. botnlægu tegundunum, þar sem veiðarnar eru þannig að mjög erfitt er að koma í veg fyrir að við séum að veiða margs konar fisktegundir á sama tíma með margvíslegum veiðarfærum á mismunandi sjó.

Fullyrðingar um sóunina eru mjög háværar. Við stundum fiskveiðar af mörg hundruð skipum og mörg þúsund manns taka þátt í þessu en því miður er það þannig að þeir sem fylgja hvað ákafast þessari aðferð til að stjórna fiskveiðum, þ.e. kvótaaflamagninu, hafa kvótakerfi á þessu, aflakvótakerfi. Þeir hafa því miður tekið umræðurnar þannig að best og einfaldast sé að þræta, segja þetta allt saman ósannindi, allar frásagnir af sóun séu rangar. Þær séu ýkjur og rangar og þess vegna séu það bara vondir menn sem vilji endilega kerfið feigt sem séu að búa þetta allt saman til.

Nýjasta dæmið um hvernig menn ánetjast ríkjandi hugmyndum er útkoma skýrslu svokallaðrar auðlindanefndar. Þar er bókstaflega skautað yfir þetta vandamál. Það virðist vera að í hugarheimi þess fólks sem semur þá skýrslu sé þetta ekkert vandamál eða a.m.k. sáralítið. Margsinnis hefur verið vitnað í þessa skýrslu í dag, herra forseti, og ég ætla ekki að gera það frekar, en þetta er mjög áberandi.

Á sama tíma og skýrslan kemur út kemur hæstv. sjútvrh. með þetta frv. Frv. felur í sér að herða eftirlitið. Það er því greinilegt, herra forseti, að hæstv. sjútvrh. er ekki sömu skoðunar og auðlindanefndin. Hæstv. sjútvrh. lítur á þetta sem mikið vandamál. Annars væri hann ekki að flytja frv. til breytingar á lögum þetta efni, hann hlýtur að gera það, enda umræðan um þetta mjög hávær.

Ég ætla ekki að dæma neitt um það sérstaklega hver hefur nákvæmlega rétt fyrir sér, ég held að enginn okkar hafi það í sjálfu sér, um það hversu mikið brottkastið er, en í mínum huga er það fáránlegt að neita umræðunni, þræta og segja að þetta sé allt lygi. Ég hef heyrt mjög háar tölur um þetta, ég hef heyrt að menn eru langt frá því að vera sammála. Sjálfur hef ég reynt að meta þetta margsinnis en það er bara persónulegt mat. Mitt mat er að sóunin nemi u.þ.b. 20 milljörðum í útflutningsverðmætum á ári, það er mat mitt á því, þetta sé svona eitthvað þar um bil.

En látum það liggja milli hluta. Það er alveg tilgangslaust annað en að horfast í augu við þetta. Stjórn fiskveiða er ekkert annað en ákvörðun um hvaða búskaparhætti við ætlum að hafa við sjávarbúskap okkar. Þetta fjallar ekki um neitt annað. Þess vegna er þessi þráhyggja að vilja ekki skoða opnum huga hvaða leiðir kunna að vera til mjög einkennileg og veldur miklum vonbrigðum.

Ég sá þó á dögunum í grein eftir hagfræðing, Þórólf Matthíasson, sem er mikill kvótasinni, a.m.k. tillögu sem fól í sér heila hugsun þó að ég skuli ekki dæma um hvort hún sé framkvæmanleg. En hagfræðingurinn gerði sér mjög vel grein fyrir því hvers vegna menn eru að henda fiski, hann hafði alveg nákvæmlega rétt fyrir sér í því, og hann kom með tillögu um að flokka þorskinn. Við vitum að við veiðum þorsk allt frá einu og hálfu kílói upp í 15, 20, 30 kíló. Hann er mjög mismunandi verðmætur. Hann lagði til að við reyndum að flokka hann og útdeila þannig kvótum í ýmsum flokkum. Þorskur væri t.d. kominn í tíu flokka. Framkvæmdin væri kannski erfið, ég ætla ekki að gera þetta að tillögu minni, en hugsunin er alveg rétt og heil, til þess að reyna að forða brottkastinu.

Ég veit það og það hefur komið fram í umræðum, herra forseti, að Færeyingum var boðið upp á þetta snilldarkerfi fyrir nokkrum árum. Það var við lýði hjá þeim í eitt og hálft ár. Þá ákváðu þeir að hætta því. Ég veit líka að fyrir lok þessa mánaðar ætlar færeyska þingið að ljúka mjög víðtækri endurskoðun á þessu fiskidagakerfi þar sem þeir ætla að reyna að vega og meta galla og kosti þess hvað hefur heppnast og hvað hefur misheppnast. Ég get upplýst það, herra forseti, að við nokkrir þingmenn höfum þegar gert ráðstafanir til að fá þessar niðurstöður hingað þannig að hið íslenska Alþingi fái kost á því að fylgjast með þeirri umræðu og athuga hvað Færeyingar eru að gera.

Færeyingar eru sú þjóð sem lifir næst okkur og lifir eingöngu á fiski, á allt sitt undir fiski. Við skulum því ekki vanmeta það að þeir vilji vanda sig og reyna að finna réttar leiðir í þessu.

Ég átta mig heldur ekki á því hvers vegna menn vilja ekki nýta sér mjög góða og mikla starfskrafta, bæði Fiskistofu og Hafrannsóknastofnunar, til að skoða þetta opnum huga. Ég þekki mjög marga ágæta starfsmenn Fiskistofu. Þeir vita nákvæmlega hvað gengur á á Íslandsmiðum. Það er ekkert við þá að sakast frekar en sjómenn eða útgerðarmennina. Það er eingöngu við löggjafann að sakast. Fiskistofumenn standa algjörlega ráðþrota gagnvart því sem er að gerast. Þó að það sé rétt að það sé góð viðleitni sem hæstv. sjútvrh. sýnir með þessu frv. og eflaust mjög mikill vilji hans til að bæta það sem slæmt er er ég sömu skoðunar og þegar þessi lög voru fyrst lögð fram 1996. Ég er sannfærður um að þau eru tilgangslaus. Þau eru tilgangslaus alveg sama þó að við setjum sektarramma, sex ára fangelsi fyrir að kjafta frá, sex ára fangelsi fyrir hinu og þessu, keyra fram hjá vigt o.s.frv. Þetta hefur engin áhrif því að þeir menn sem stunda sjó og stunda útgerð eru ekki glæpamenn. Þeir eru hins vegar í þeirri stöðu að þeir eiga engra kosta völ annarra en að reyna að lifa af. Það er ekkert annað sem er að gerast, það er ekkert annað sem þeir eru að gera.

Ég held, herra forseti, að við verðum að skoða þessa hluti opnum huga. Ég veit að Hafrannsóknastofnun hefur á sínum snærum menn með mikla þekkingu, t.d. á meðferð veiðarfæra. Ég held að við ættum að skoða hvort við gætum reynt að ná árangri í botnfiskveiðunum með því að setja saman ýmsar reglur, t.d. með því að setja reglur um notkun og stærð veiðarfæra. T.d. með því að skoða svæði og svæðaskiptingar, með því að skoða hið færeyska kerfi, með því að skoða tillögur sem liggja fyrir og gömlu tillögurnar frá tæknideild Fiskifélagsins um að setja aflavísa á skipin.

Ég er alveg sannfærður um að þegar stjórnvöld eftir dóm Hæstaréttar gáfust upp á því að stjórna stærð fiskiskipaflotans urðu allar tilraunir til að hefta brottkastið endanlega vonlausar. Brottkastið er bara eðlilegt. Að það er í öfugu hlutfalli við kvótaeign skipa kemur bara af sjálfu sér. Þau skip sem eiga mesta kvótana og eru best gerð út hafa náttúrlega minnstra hagsmuna að gæta við að henda fiski, þau standa það vel að vígi. Þetta er alveg í öfugu hlutfalli. Við vitum alveg hvernig þetta á sér stað.

Áskorun mín, herra forseti, er sú, bæði til þings og hæstv. ráðherra, að menn hætti að deila um þetta, hætti að taka undir með þeim sem þræta um að þetta sé. Þetta er verulega mikið efnahagsvandamál. Og öllum, allri þjóðinni, mönnum í öllum stjórnmálaflokkum hlýtur að vera skylt að reyna að lágmarka þetta því að við erum þó að reyna að fá sem mest við getum út úr íslenskum sjávarútvegi og til þess þurfum við að vanda okkur. Þess vegna þýðir ekki að vera með neina fordóma um það. Við eigum að skoða alla möguleika. Landssamband ísl. útvegsmanna hefur verið hvað harðast í því að taka þá afstöðu að neita og þræta. Ég held að þeir verði að endurskoða afstöðu sína.

Ég held að mjög mikill meiri hluti þjóðarinnar ætli að það sé farsælast og best að veiðiheimildir, hvernig sem við skilgreinum þær, eigi og skuli vera í eigu útgerðarmanna. Ég er einn af þeim, herra forseti, sem vilja breyta þessu kerfi og það hefur aldrei hvarflað að mér að taka veiðiheimildirnar af skipunum. Útgerðarmennirnir verða að eiga þær. Ég er þeirrar skoðunar. Það er best að það sé alveg ljóst hvar ég stend í því. En við verðum á hverjum tíma að breyta því kerfi sem hefur reynst illa. Annars gengur búskapur okkar ekki upp. Við verðum að leita þeirra leiða að finna betri aðferðir ef ljóst er að ein aðferðin sem við reyndum reyndist íslensku þjóðarbúi illa.