Umgengni um nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 13:11:52 (787)

2000-10-19 13:11:52# 126. lþ. 14.1 fundur 119. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[13:11]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. sagði að með þessu kerfi næðum við að hámarka verðmætin og annars staðar í ræðu sinni lýsti hann því hvernig menn næðu þessu hámarksverðmæti. Skipstjóri sem átti fjögurra tonna kvóta í ýsu hugðist hámarka verðmæti aflaheimilda sinna, fór á veiðislóð þar sem hann ætlaði að veiða ýsu og þurfti að henda 20 tonnum af þorski í sjóinn áður en hann náði því að hámarka verðmætin. Þetta er vandinn. Í þessu kerfi er fólginn hvati til að ganga illa um auðlindina. Við höfum rætt þetta hér í dag og það er full ástæða til þess að leita jákvæðra leiða. Refsileiðin hefur ekki skilað árangri enn. Það er ekki svo að það vanti reglur eða ákvæði í lög um að refsa eigi mönnum annaðhvort með fangelsi eða miklum sektum. En það hefur einfaldlega ekki dugað og menn hafa reyndar aldrei verið dæmdir. Það mun reynast mjög erfitt að koma höndum yfir menn með þeim hætti að ætla sér að refsa þeim og berja til hlýðni. Það verður að fara aðrar leiðir.

Hv. þm. bar einnig saman sóknardagakerfi og kvótakerfi og nefndi Kanada til sögunnar. Ég veit ekki betur en það hafi verið kvótakerfi í gangi í Kanada þegar þorskstofninn hrundi þar. Svo hafði verið í einhver ár. Ég minnist þess að Jakob Jakobsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, skrifaði einmitt mikla lofgrein um veiðistýringarkerfið í Kanada fáum árum áður en stofnarnir þar hrundu. En þá var þar komið á aflamarkskerfi, því miður.