Umgengni um nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 13:25:45 (794)

2000-10-19 13:25:45# 126. lþ. 14.1 fundur 119. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[13:25]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Það má kannski segja sem svo að við bætum ekkert umræðuna með því að vera að draga einhverjar sögur upp úr fortíðinni. En það er samt nauðsynlegt vegna þess að andstæðingar kvótakerfisins hafa viljað reyna að halda því fram að það væri allt saman kvótakerfinu að kenna að afla væri hent og það er verið að reyna að draga það fram að þetta er ekki rétt. Það hefur alla tíð verið gert og þessi aflastýringarleið hefur í raun ekkert með það að gera að afla sé kastað. Það er kannski gert öðruvísi en þetta hefur alla tíð verið tíðkað.

Að sjálfsögðu erum við öll sammála um að reyna eigi að koma í veg fyrir sóunina og ég held að við hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson séum mjög sammála um það. En þær tölur sem komið hafa fram í umræðunni eins og frá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, um að þetta væru 20 milljarðar, eru alveg út í loftið. Það er ekkert á bak við þá tölu hv. þm. frekar en þá tölu sem kom frá hv. þm. Sverri Hermannssyni þar sem loðnuskipstjóri sagði honum að kastað væri 200 þús. tonnum. (Gripið fram í.) Það voru ekki meiri vísindi í kringum þetta en það að einhver maður hafði sagt honum þetta á fundi hjá Frjálslynda flokknum og þar með eru þau orðin heilög sannindi.

Auðvitað eru þetta algerar ágiskunartölur og engin ástæða til að hafa þær yfir hér sem einhverja sönnun um að þetta kerfi gangi ekki upp.