Umgengni um nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 13:27:35 (795)

2000-10-19 13:27:35# 126. lþ. 14.1 fundur 119. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast) frv., MS
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[13:27]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að leggja nokkur orð í belg í þessari umræðu um frv. hæstv. sjútvrh. varðandi lög um umgengni um nytjastofna sjávar.

Ég tek undir það sem fram hefur komið að frv. lýsir viðleitni hæstv. sjútvrh. til að tryggja að farið sé að lögum um umgengni um nytjastofna sjávar með það að markmiði að draga úr svonefndu brottkasti á afla. Ég tel því miður að sú ráðstöfun sem hér er um að ræða muni eflaust ekki koma í veg fyrir brottkast, en ég hins vegar ítreka að ég met þá viðleitni sem fram kemur í frv. hjá hæstv. ráðherra.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um það að sjávarafla hefur auðvitað í langan tíma verið sóað með brottkasti og það hefur algerlega verið óháð því fyrirkomulagi sem við lýði hefur verið við stjórn fiskveiða. Ég held að fullyrða megi að allir þeir sem hafa stundað sjómennsku að einhverju marki þekki af eigin reynslu að afla hafi verið kastað í hafið í einhverjum mæli og það gildir einu um hvaða fiskveiðistjórnarkerfi hefur verið að ræða, kvótakerfi, sóknarmarkskerfi eða jafnvel frjálsar veiðar. Meira að segja í sóknarmarkskerfinu í gamla daga var afla hent, í því kerfi sem sumir hv. þm. vilja taka upp á ný.

En allt að einu er hér um vandamál að ræða sem hefur í för með sér sóun á auðlindinni og við megum alls ekki láta það viðgangast og þurfum að finna leiðir út úr því. En ég ætla ekki að blanda mér í þá umræðu sem fram hefur farið um hve mikið magn hefur verið að ræða eða hve mikil verðmæti það eru. Ég held að menn geti skipst á skoðunum um það án þess að komast að hreinni niðurstöðu þar.

En hvaða úrræðum má beita í þessu sambandi? Ég er einn þeirra sem hafa talið að skoða eigi það úrræði sem hefur verið nefnt meðaflaregla og lítillega hefur við rætt hér í dag, sem felst í því að fiskiskip geti landað afla umfram heimildir í einhverjum mæli í stað þess að viðkomandi afla sé kastað í sjóinn. Með þessu væri dregið úr sóun auðlindarinnar og umgengni um auðlindina yrði þar með frekar í anda þeirra laga sem hér um ræðir. Hins vegar má þessi meðaflaregla ekki fela í sér fjárhagslegan hvata fyrir útgerð og sjómenn til að landa óeðlilega miklum afla umfram heimildir þannig að heildaraflinn verði ekki þess vegna meiri en fiskveiðiráðgjöf gerir ráð fyrir hverju sinni.

Herra forseti. Ég vil eingöngu hvetja til þess hér við umræðuna að sú nefnd sem fjallar um endurskoðun fiskveiðistjórnarlaganna taki þetta úrræði til sérstakrar umfjöllunar með það að markmiði að afli fiskiskipa berist á land fremur en að honum sé kastað í hafið í einhverjum mæli. Okkur ber auðvitað skylda til að leita leiða að því markmiði að umgengnin um auðlindina sé í lagi og nýtingin sé sem best og ég vil leggja það inn í þessa umræðu að sú nefnd sem um ræðir taki þetta úrræði til skoðunar með það í huga að ná því markmiði sem við öll viljum stefna að, að sjávarauðlindirnar séu nýttar, þeim sé ekki sóað. Ég tel að þetta sé leið sem gæti hugsanlega komið til greina í því sambandi.