Umferðarframkvæmdir í Reykjavík

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 13:52:44 (803)

2000-10-19 13:52:44# 126. lþ. 14.94 fundur 59#B umferðarframkvæmdir í Reykjavík# (umræður utan dagskrár), JB
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[13:52]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég vissi ekki að við værum komin inn á einhvern borgarstjórnarfund í Reykjavík með þátttöku þingmanna úr öðrum bæjarfélögum. En það er gott. Vissulega er afar nauðsynlegt að styrkja umferð, styrkja öryggi í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu. Það er afar brýnt.

Ég vil þó hér á þeim stutta tíma sem ég hef draga fram þátt almenningssamgangnanna. Ég hefði viljað sjá, herra forseti, að það lægi fyrir gott skipulag í almenningssamgöngum sem ekki aðeins næði til Reykjavíkur heldur einnig til nágrannasveitarfélaga, til Kópavogs, til Garðabæjar, til Hafnarfjarðar, til Mosfellsbæjar og út á Seltjarnarnes. Það væri svona heildarstefna í almenningssamgöngum sem jafnframt væri hluti af skipulögðu almenningssamgangnaneti við aðra hluta landsins þannig að almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu nytu forgangs í umferð. Það væri í skipulaginu gert ráð fyrir því að strætisvagnar ættu forgangsbrautir til að fara um og almenningssamgöngur væru efldar. Það er líka vistvæn borgarumferð. Ég hefði viljað sjá af hálfu samgrn. í samvinnu við öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu samræmda, sterka og metnaðarfulla áætlun í almenningssamgöngum sem hrifi.