Umferðarframkvæmdir í Reykjavík

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 13:54:52 (804)

2000-10-19 13:54:52# 126. lþ. 14.94 fundur 59#B umferðarframkvæmdir í Reykjavík# (umræður utan dagskrár), ÁGunn
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[13:54]

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Í fyrsta lagi er það dálítið fróðlegt að hlusta á þingmenn vinstri grænna tala um almenningssamgöngur eins og þær sé hægt að lögbinda og fyrirskipa fólki að fara í strætó. Það vill bara þannig til að fólk vill nota einkabíl og kýs að nota einkabíl og því breyta menn ekki með lagasetningu, fyrirskipunum eða boðvaldi að ofan.

Það kemur náttúrlega til kasta hv. Alþingis að forgangsraða í þessum málum eins og öðrum. Og þegar við lítum á framkvæmdir og frestun framkvæmda vegna þenslu þá verðum við að horfa á hagsmuni heildarinnar líka. Ég hef átt þess kost að ræða til að mynda við fólk sem er í byggingariðnaði og er að byggja á höfuðborgarsvæðinu og þannig er ástandið hér að menn þurfa að flytja inn vinnuafl í þó nokkuð miklum mæli til þess að vinna verk. Yfirborganir eru algengar eins og hv. þingheimur þekkir og ég er ekki viss um að það sé neinn greiði til lengri tíma litið að bregðast ekki við og draga úr framkvæmdum hér.

Að hluta til er verið að tala um framkvæmdir sem frestast vegna skipulagsmála og umhverfismats eins og fram hefur komið en að hluta til eru menn að bregðast við þenslunni og þar verða menn að horfa á hagsmuni heildarinnar eins og ég nefndi.

Við ákvarðanir um frestum verða menn líka að forgangsraða og þar er lágmörkun alvarlegra umferðarslysa númer eitt, tvö og þrjú. Við erum að horfa upp á mjög dýr slys. Þau eru dýr fyrir samfélagið og fórnarlömb þessara slysa lenda því miður oft inni á heimilum fyrir alvarlega fatlað fólk og það er líka dýrt, herra forseti. Við verðum því að forgangsraða og setja í forgang það sem skiptir máli og varast stundarhagsmuni og fagurgala í þessu.

Ég vil í lokin, herra forseti, nefna eitt sem ekki hefur verið nefnt í þessari umræðu og það er færsla sjóflutninga yfir á þjóðvegina. Ég vil gjarnan spyrja hæstv. samgrh. hvort það kunni ekki að skapa ný vandamál varðandi þjóðvegi landsins að nú eru allir sjóflutningar komnir á landflutningaleiðina?