Umferðarframkvæmdir í Reykjavík

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 14:01:25 (807)

2000-10-19 14:01:25# 126. lþ. 14.94 fundur 59#B umferðarframkvæmdir í Reykjavík# (umræður utan dagskrár), Flm. BH
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[14:01]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og hv. þm. fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Um leið vil ég harma það að niðurskurðurinn eigi u.þ.b. að hálfu að bitna á höfuðborgarsvæðinu þó það komi mér í sjálfu sér ekki á óvart.

Hæstv. ráðherra nefndi það hér að skipulagsyfirvöld á svæðinu og umhverfismatsframkvæmdir réðu því að ekki væri hægt að ráðast í þessar framkvæmdir. Það kemur mér líka á óvart vegna þess að samkvæmt upplýsingum sem ég hef frá borginni þá er a.m.k. kosti þeirra þáttur í þessu máli fullkomlega í lagi, samkvæmt borgaryfirvöldum í Reykjavík er hægt að fara í þær framkvæmdir sem eru á vegaáætlun þannig að þessi rökstuðningur kemur mér mjög á óvart.

Ég vil líka minnast á að hér voru nefnd til sögunnar fræg gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar sem ég vakti reyndar athygli á í ræðu minni. Hv. þm. Þorgerður Gunnarsdóttir nefndi þau sérstaklega og talaði líkt og við höfum heyrt áður í árásarstíl gegn borgaryfirvöldum í Reykjavík fyrir að hafa ekki staðið sig sem skyldi í þeim málum. Ég ætla nú ekki að fara að verja borgaryfirvöld í Reykjavík. Þau kunna fullkomlega að svara fyrir sig þó að þingmenn sjálfstæðismanna virðist ekki treysta minni hlutanum til að fara með stjórnarandstöðuna, sem ekki er skrítið. Ég vil hins vegar benda á að skipulagsyfirvöld í Reykjavík eru tilbúin varðandi framkvæmdir á vegáætlun fyrir 2001. Hér er einungis svarað með klassískum klisjum, herra forseti, og ég harma það.

Í lokin vil ég líka benda á að það sem fullyrt var hér af hv. síðasta ræðumanni um framlög til vegamála er ekki í samræmi við þær upplýsingar sem ég hef frá Þjóðhagsstofnun. Framlög ríkisins til þessara mála voru t.d. á árunum 1993--1995 mun hærri en þau eru í dag, sem hlutfall af vergri framleiðslu, og á þessu þriggja ára tímabili voru þau hærri en þau hafa nokkurn tímann verið síðan. Þannig að ekki stemma tölurnar (Gripið fram í.) sem ég hef frá Þjóðhagsstofnun annars vegar og hins vegar frá hv. þm. Gunnari Birgissyni.

Herra forseti. Að lokum þakka ég fyrir þessa umræðu og hv. ráðherra fyrir svörin.