Umgengni um nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 14:06:41 (809)

2000-10-19 14:06:41# 126. lþ. 14.1 fundur 119. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast) frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[14:06]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum nr. 57 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum. Þar er segir í 1. gr., með leyfi forseta:

,,Á eftir 1. mgr. 13. gr. laganna kemur ný málsgrein, 2. mgr., svohljóðandi:

Telji Fiskistofa að afli tiltekins skips sé að stærðarsamsetningu, aflasamsetningu eða gæðum frábrugðinn afla annarra skipa sem stunda sambærilegar veiðar skal Fiskistofa setja veiðieftirlitsmann um borð í skipið til að fylgjast sérstaklega með veiðum þess.`` Þetta er síðan útlistað nánar.

Virðulegi forseti. Það veldur að vissu leyti vonbrigðum að þessi leið skuli valin af hálfu sjútvrn. og hæstv. sjútvrh. Í raun virkar þetta á mig eins og dúsa upp í þjóðina vegna óánægju hennar með stjórn fiskveiða í landinu almennt. Ég tel að þessi breyting muni í sjálfu sér ekki skipta mjög miklu þegar á heildina er litið.

Fram hefur komið að hafa þarf eftirlit með um 1.600--1.700 fiskiskipum og bátum og þegar upp er staðið held ég að breytingin verði ekki mikil. Ég vil þó ekki leggjast gegn þessari breytingu. Hún miðar fyrst og fremst að því að lappa upp á það kerfi sem hér er til umræðu og margra hugur stendur til að breyta verulega. Nefnd um endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu er að störfum. Kannski hefði verið ástæða til að bíða eftir áliti nefndarinnar og samkomulagi um tillögur um breytingar á stjórn fiskveiða.

Það sem ásamt öðru hefur komið til umræðu í nefndinni er brottkast afla. Vitanlega eru margar leiðir færar til að endurskoða lögin um stjórn fiskveiða þannig að það stemmi stigu við brottkasti. Það er augljóst að lögregluaðgerðir skila mjög takmörkuðum árangri þegar komið er í óefni í atvinnugreinum. Það á ekki bara við um fiskveiðar. Við vitum að í öðrum greinum getur álíka staða komið upp, t.d. í landbúnaði þegar farið er að keyra tómata á haugana, og þá er einhver kerfislægur vandi í gangi. Þegar farið er að urða kjöt þá er það til marks um kerfislægan vanda. Og þegar upp úr sýður þannig að fólki blöskrar yfir stjórnunarháttum þá dugar ekki að efla bara lögreglueftirlit, a.m.k. ekki til frambúðar. Þess vegna er mikilvægast, í sambandi við brottkast og önnur vandamál tengd sjávarútvegsstefnunni, að fara heildstætt yfir málin og gera tillögur sem leiða þá til að þessi vandi minnkar.

Í umræðunni hefur komið fram að brottkast afla hafi alltaf átt sér stað. Menn hafa verið stóryrtir um umfang brottkastsins. Raunar held ég að á seinni tímum hafi brottkast afla minnkað mjög t.d. á frystiskipaflotanum. E.t.v. má ímynda sér og það er margra álit, að brottkast afla sé fyrst og fremst á smærri bátum vegna kvótastöðu þeirra og vegna þess að þeir megi ekki hafa meðafla o.s.frv. og því þurfi að skoða þau mál sérstaklega.

Það er áhyggjuefni að hæstv. sjútvrh. skuli bregðast við með eftirlitsaðgerðum einvörðungu þegar flestir meta það svo að fara þurfi í róttækar aðgerðir í sjávarútvegsmálunum til að leysa þau vandamál sem hvað mest brennur á og t.d. það sem hér er til umræðu, þ.e. brottkast afla.

Ég er sammála hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni um að staða fiskstofna er misjöfn. Kvóti og brottkast eru t.d. ekki vandamál varðandi uppsjávarstofna í eins miklum mæli og í botnfiskveiðum. Það er auðveldara að vera með kvóta, eins og fram kom í málflutningi hans, á loðnu og síld og kolmunna, þ.e. uppsjávartegundum. Brottkastið virðist miklu meira vandamál við botnfiskveiðar og þar sem menn hafa kannski einvörðungu kvóta til veiða á einni tegund eins og margsinnis hefur komið fram.

Ég leggst þess vegna ekki alfarið gegn þessari ráðstöfun. Ég tel hins vegar að betra hefði verið að bíða eftir niðurstöðum nefndarinnar sem á að fjalla um endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu og sjá hvaða tillögur þar koma fram, heildstætt. Eins og ég nefndi áðan er þörf á grundvallarbreytingum og það þarf að taka miklu fleiri sjónarmið inn í. Grundvallaratriðið er að breyta fyrirkomulagi fiskveiðistjórnarinnar og móta heildstæða sjávarútvegsstefnu sem m.a. leysir þann vanda sem þessu frv. er ætlað að takast á við. Í því samhengi er mikilvægt að aðgreina í umræðunni fyrirkomulagsatriði eins og leigu og sölu á aflaheimildum í kvótakerfi annars vegar og hins vegar verndunaraðgerðir og fiskveiðistjórnarsjónarmið byggð á áliti vísindamanna, auk upplýsinga frá atvinnugreininni sjálfri.

Það er mikilvægt að landsmenn nái að sameinast um farsæl markmið í sjávarútvegsmálum og meginlínur í þróun greinarinnar á komandi árum. Nauðsynlegt er að við endurskoðun kerfisins sé hugsað um, t.d. hvernig við eigum að haga samsetningu flotans og hugmyndir um betri nýtingu. Í umræðunni hefur komið fram að gríðarlegum verðmætum er hent, sérstaklega af frystitogurunum og er þá ekki um brottkast að ræða heldur afganga sem menn nenna ekki að hirða. Þetta eru sjónarmið sem verða að koma sterklega inn í umræðuna um endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu. Bæta þarf nýtingu, huga að samsetningu bátaflotans, huga að möguleikum byggðarinnar í því samhengi, m.a. að því hvernig aflinn er sóttur, mögulega með landhelgi fyrir strandveiðiflotann o.s.frv.

Virðulegi forseti. Eins og ég gat um áðan tel ég að þetta séu plástursaðgerðir og dúsa, eins konar friðþæging vegna máls sem er í brennidepli og bullandi óánægja er með í samfélaginu. Ég tel að frv. breyti í sjálfu sér engu og verð því að binda vonir við að vinna endurskoðunarnefndarinnar um stjórn fiskveiða skili árangri á allra næstu mánuðum þannig að fram komi heildstæðar tillögur um fyrirbyggjandi aðgerðir gegn brottkasti afla.

[14:15]

Við erum öll mannleg og við sem höfum komið nálægt sjávarútveginum vitum vel að um hann gilda kannski alveg sömu lögmál og hjá þeim sem eiga lítinn kartöflugarð, að brottkast er alls staðar, við vitum það, en það er spurning um hversu mikið það er og spurning um samsetningu og stærð. Úr litlum heimilisgarði er hægt að þræla smælkinu í fjölskylduna í viku eða svo þannig að það nýtist, en það er verra ef maður fer í fimm hektara og ætlar að selja öðrum. Þetta eru bara grundvallratriði sem mannskepnan þarf að slást við í sínu eðli. Smælkið verður ekki selt ef maður gerist stór og brottkast verður í einhverjum mæli.

En kerfi sem undirbyggir og gerir það fýsilegt að eyðileggja og henda verðmætum er vont kerfi. Og það er kerfislægt vandamál sem verður að taka á í heild sinni. Það verður ekki gert með lögregluaðgerðum. Það verður gert með breytingum á strúktúr í greininni og þá er ég að tala um uppbyggingu flotans, nýja sýn varðandi veiðar og vinnslu, hvernig við tökum aflann, og heildstæðar lausnir til að fyrirbyggja það mál sem hér er til umræðu.

Virðulegi forseti. Að svo mæltu ætla ég að ljúka máli mínu, en leggst ekki á neinn hátt gegn frv. Ég tel að það skipti í aðalatriðum ekki stórmáli og ég held að það bæti ekki stöðuna en það er heldur ekki til tjóns.