Umgengni um nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 14:24:28 (811)

2000-10-19 14:24:28# 126. lþ. 14.1 fundur 119. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[14:24]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra talaði um að næsta mál tengdist brottkastinu. Þar er verið að draga úr möguleikum manna til að færa milli tegunda, sem ég er út af fyrir sig sammála um að verði gert, en það hlýtur þá að auka aftur á móti hættuna á því að brottkastið aukist, þannig að það getur nú varla verið hugsað í þeim tilgangi að draga úr brottkasti. Það hljóta að vera einhver önnur sjónarmið þar á bak við en að draga úr brottkastinu. Þess vegna finnst mér hæstv. ráðherra býsna óheppinn að vera að nefna þetta sem hluta af þessu máli, að það sé hluti af því að draga úr brottkastinu.

Síðan hélt hann því fram að það yrði verri fiskveiðistjórn ef menn færu einhverja af þeim leiðum sem hafa verið nefndar til að fá aflann að landi. Ég tel að það dæmi sig sjálft að segja þessa hluti á þennan hátt, vegna þess að sú fiskveiðistjórn sem býður upp á að miklum fiski sé kastað í sjóinn og sífelld umræða sé uppi um það er ekki góð fiskveiðistjórn.