Umgengni um nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 14:28:43 (815)

2000-10-19 14:28:43# 126. lþ. 14.1 fundur 119. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[14:28]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst umræðan hrökkva í gamalkunnugan farveg þegar hæstv. ráðherra fór að finna því allt til foráttu eða sjá á því öll tormerki að unnt væri að útfæra einhvers konar meðaflareglu eða gera tilraun í þá átt. Röksemdafærslan var á þá leið að það yrði þá að áætla fyrir fram fyrir meðaflanum og skerða úthlutaðan kvóta í viðkomandi tegundum sem því næmi. Í þessu er fólgin sá hugsanafeill, ef svo má að orði komast, að meðaflareglunni er ætlað að mæta því brottkasti sem fyrir er. Ef við segjum að meðaflaheimildir væru upp á 10% í þorski og úthlutað væri 200 þús. tonnum, þá kæmu þessi 20 þús. tonn að landi í staðinn fyrir þau sem áður hefði verið hent í sjóinn. Þá ætti stofninn að standa jafnréttur eftir og það sem við hefðum fengið væru verðmætin að landi og upplýsingar um veiðiálagið á stofninn. Og jafnvel þó að þetta gengi ekki alveg svona upp, þó það gerði það ekki nema 50%, værum við þó að ná umtalsverðum árangri í báðum tilvikum, að fá verðmætin að landi og þá réttari upplýsingar um veiðiálagið.