Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 14:34:55 (821)

2000-10-19 14:34:55# 126. lþ. 14.2 fundur 120. mál: #A stjórn fiskveiða# (tegundartilfærsla) frv., sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[14:34]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Í frv. er lagt til að ákvæði laganna um tegundartilfærslu verði þrengd. Tegundartilfærsla felst í því að heimilt er að veiða yfir aflamarki í tiltekinni tegund botnfisks, enda skerðist aflamark í öðrum tegundum botnfisks hlutfallslega miðað við þorskígildisstuðla. Heimild þessi hefur verið óbreytt frá upphafi, eða frá 1. jan. 1991, og miðast við 5% af heildarverðmæti botnfiskaflamarks. Tilgangurinn með þessu ákvæði var fyrst og fremst að skapa sveigjanleika í kerfinu þannig að síður kæmi til brottkasts þegar fisktegund fengist sem við komandi bátur hefði ekki aflamark í. Niðurstaðan hefur hins vegar orðið sú að þessi heimild hefur fyrst og fremst verið nýtt til að auka afla í eftirsóknarverðari tegundum á kostnað annarra. Hér er því lagt til að sú takmörkun verði sett á heimildina að aldrei verði heimilt að breyta meira en sem nemur 2% af botnfiskkvótanum í hverja tegund. Með þessu móti væri komið í veg fyrir tegundarbreytingar í þeim mæli sem verið hafa án þess að horfið væri frá upphaflegum tilgangi ákvæðisins.

Í fjölmiðlum hefur komið fram að breyting þessi hefði lítil áhrif þar sem á síðasta ári hefði heildarbreyting vegna tegundartilfærslu verið 1,63% og þar af hefði aukning í karfaveiðum aðeins verið um 0,35%. Þessar tölur eru að vísu réttar út af fyrir sig en það ber að athuga að hér aðeins litið til síðasta fiskveiðiárs þegar tegundartilfærslan var lítið notuð. Þá skal þess getið að hér er miðað við þorskígildistonn en ef miðað er við raunaukningu í karfa nemur hún 2,7%.

Sé hins vegar litið til fiskveiðiáranna 1993--1994 til 1998--1999, leiddi tegundartilfærslan til þess að veiddar voru 57 þús. lestir umfram leyfilegt aflamark. Hefði tegundartilfærsluheimildin verið með því móti sem hér er lagt til, hefði sá umframafli orðið um 26 þús. lestir.

Það má segja að svipuð þróun hafi verið í veiðum á grálúðu. Þetta sýnir að þrenging á tegundartilfærslu er nauðsynleg til að tryggja að veiðin í ákveðna stofna fari ekki úr böndunum og auk þess stuðlar breytingin í raun að því að hún nýtist með þeim hætti sem til var ætlast, þ.e. komi í veg fyrir brottkast.