Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 14:49:31 (823)

2000-10-19 14:49:31# 126. lþ. 14.2 fundur 120. mál: #A stjórn fiskveiða# (tegundartilfærsla) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[14:49]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir tekur að hluta til undir röksemdafærslu mína varðandi breytingar á tegundartilfærslunni en hefur hins vegar ekki alveg skilið það sem ég er að reyna að segja varðandi tengslin við brottkastið.

Eins og ég nefndi áðan hefði umframaflinn í karfa verið 26.000 tonn á tilteknu árabili en ekki 57.000 tonn eins og raunin var ef tegundartilfærslan hefði verið eins og ég er hér að leggja til. Þetta hefði þýtt að rúm 30.000 tonn hefðu verið til ráðstöfunar á þessu tímabili til þess að mæta veiðum úr tegundum sem viðkomandi skip höfðu ekki aflamark fyrir. Það hefði verið hægt að færa yfir í tegundir sem menn voru að veiða og þeir höfðu ekki aflamark fyrir í stað þess að færa það yfir í karfann. Þetta eru 5 þús. tonn á ári. Og ég held að það sé umtalsvert þegar við erum að tala bara um þessa einu tegund af brottkasti, þ.e. brottkast vegna þess að menn eiga ekki aflamark fyrir tegundinni sem þeir eru að veiða. Ég er ekki að tala um það þegar menn eru að stærðarflokka úti á sjó heldur þegar menn eru að veiða tegundir sem þeir hafa ekki aflamark fyrir.

Tegundartilfærslan er til þess að menn geti þá fært af kvóta sínum í öðrum tegundum yfir í þá tegund. En vegna þess hvernig þessu hefur verið háttað hefur verið hagstæðara að færa það yfir í eftirsóknarverðar tegundir og verið hægt að færa það að fullu yfir í tegundir eins og karfann. Það hefur gert fiskveiðistjórnina ónákvæmari og hefur gert það að verkum að brottkast hefur væntanlega verið meira en það hefði ella orðið.