Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 14:51:20 (824)

2000-10-19 14:51:20# 126. lþ. 14.2 fundur 120. mál: #A stjórn fiskveiða# (tegundartilfærsla) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[14:51]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég skil það að hæstv. ráðherra lítur svo á að ef löggjöfin hefði virkað eins og henni var e.t.v. ætlað að virka þá hefði það hugsanlega getað komið í veg fyrir brottkast. Eigi að síður er líka hægt að líta á málin frá öðrum sjónarhóli, sem sé þeim að ef verið er að þrengja þennan möguleika þá sé með því verið að hvetja til brottkasts.

En ég held að það sé ekki vinnunni við þetta mál endilega til framdráttar að við förum nákvæmlega tæknilega yfir þetta hér í stólnum. Þetta mál verður skoðað eins og þarf í hv. nefnd og fulltrúar ráðuneytisins hafa þar auðvitað tilefni til að koma og tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og við nefndarmenn þá að spyrja nánar út í hvernig þeir hafi hugsað sér framkvæmdina, hvernig hún hafi verið og hvernig menn ætli sér með breyttri framkvæmd að mæta þeim vanda sem brottkastið vissulega er.