Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 14:52:31 (825)

2000-10-19 14:52:31# 126. lþ. 14.2 fundur 120. mál: #A stjórn fiskveiða# (tegundartilfærsla) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[14:52]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Raunverulega er ekki verið að takmarka möguleikann til tegundartilfærslu því að 5% möguleikinn verður áfram fyrir hendi. Það er einungis verið að takmarka það þannig að ekki sé hægt að fara með nema 2% yfir í eina tegund.

Hins vegar er það auðvitað þannig að ef útgerðarmenn og sjómenn vilja ekki nota tegundartilfærsluna til þess að komast hjá því að henda tegundum sem þeir veiða og þeir hafa ekki aflamark fyrir þá er það þeirra ákvörðun og það er eitthvað sem gerist án þess að við getum raunverulega neitt gert við nema þá með auknu eftirliti. (Gripið fram í.) En við erum líka að reyna að aðlaga kerfið að þessu vandamáli til þess að koma í veg fyrir það og að þeir möguleikar sem við höfum til sveigjanleika í kerfinu nýtist til þess að koma í veg fyrir brottkast.