Mælistuðlar í fiskveiðum og vinnslu sjávarafla

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 15:16:37 (828)

2000-10-19 15:16:37# 126. lþ. 14.3 fundur 29. mál: #A mælistuðlar í fiskveiðum og vinnslu sjávarafla# þál., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[15:16]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Hér er raunverulega um þrjú mál að ræða. Nýtingarstuðlarnir í frystiskipunum eru breytilegir og reiknaðir út miðað við hvert skip. Það mál er til athugunar í þeirri nefnd sem fer von bráðar að skila af sér varðandi samanburð á starfsaðstöðu frystingar á sjó og frystingar í landi.

Annað málið er þorskígildisstuðlarnir. Þeir eru einfaldur reikningur á verðmæti hinna mismunandi tegunda út frá verðmæti þorsks og ekkert um þá að segja. Þeir eru mælistika sem við notum og óskynsamlegt að breyta mælistikunni.

Hins vegar hafa slægingarstuðlarnir verið á borðinu hjá mér eins og hv. þm. nefndi réttilega. Úttekt var gerð á þeim á Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins fyrir þremur árum, held ég að ég megi segja, og sú skýrsla sýnir einmitt hversu flókið mál er um að ræða vegna þess að hlutur innyfla er mjög mismunandi eftir árstíðum og landsvæðum. Sá stuðull sem við erum með í dag er nokkurs konar meðaltal. Þetta getur haft áhrif á hvort menn slægja og hvenær menn slægja aflann til að fá sem besta nýtingu á sínum kvóta.

Ég hef ekki séð í hvaða átt ætti að fara til að leita að betri aðferð en við höfum nú þrátt fyrir að ég hafi ígrundað þetta nokkuð. Þar til ég fæ einhverja betri hugmynd um það hvert ætti að fara mun ég ekki leggja til breytingar á slægingarstuðlunum í ljósi þess að til er tiltölulega ný úttekt frá RF um þetta efni og ég tel ekki ástæðu til að biðja þá um nýja úttekt að svo stöddu.