Mælistuðlar í fiskveiðum og vinnslu sjávarafla

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 15:19:01 (829)

2000-10-19 15:19:01# 126. lþ. 14.3 fundur 29. mál: #A mælistuðlar í fiskveiðum og vinnslu sjávarafla# þál., Flm. JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[15:19]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherra svörin og hvað varðar þessa stuðla í fullvinnsluskipunum tel ég virkilega fagnaðarefni ef þar væri hægt að leggja fram góða vinnu sem gæti sannfært menn um að það sé sanngjarnt að hafa þá þar uppi og er spennandi að sjá hvort þar eru breytingar á ferðinni.

Ég tel reyndar að það eigi að fara yfir þetta mál í heildina og það væri hið besta mál að það yrði gert. Það gæti leitt til þess að menn kæmust að þeirri niðurstöðu að þessir slægingarstuðlar ættu að vera mismunandi. Ég sé ekki að það væri neitt að því. Ég tel að ráðuneytið ætti jafnvel að hafa þann háttinn á að ráðuneytið gæfi út reglugerðir vegna slægingarstuðla, kannski mismunandi eftir svæðum og árstíðum og það er ekkert að því. Það er mjög óeðlilegt að menn séu að spila á þetta út frá því hvort það kemur þeim vel vegna einhvers meðaltals sem menn reikna yfir allt landið og getur verið býsna óhagstætt fyrir suma sem mundi kannski henta að landa fiski óslægðum en gætu ekki gert það vegna þess að það kemur svo óhagstætt út. Auðvitað eru menn alltaf að horfa á veiðiheimildir sínar og eru að nýta þær að fullu. Þannig hugsa allir sem eru í útgerð og vinna undir þessu kerfi og það er eðlilegt. Þetta getur verið ósanngjarnt og valdið því að menn geti ekki valið þær aðferðir við veiðarnar sem eðlilegt væri að þeir gerðu.