Mælistuðlar í fiskveiðum og vinnslu sjávarafla

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 15:22:03 (831)

2000-10-19 15:22:03# 126. lþ. 14.3 fundur 29. mál: #A mælistuðlar í fiskveiðum og vinnslu sjávarafla# þál., Flm. JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[15:22]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er reyndar á annarri skoðun en hæstv. ráðherra hvað það varðar. Ég held að það sé ekkert mjög flókið mál að hafa mismunandi slægingarstuðla eftir árstímum og jafnvel eftir svæðum. Það liggur alveg fyrir hvar menn landa aflanum. Það liggur alveg fyrir á hvaða tíma það er gert. Það liggur alveg fyrir hvort það var slægt eða óslægt sem kom að landi. Þetta er ekki mjög flókið mál því að allar þessar tölulegu upplýsingar koma til Fiskistofu. Að mínu viti er hægðarleikur hjá þeim að koma saman fyrir hádegi í tölvukerfum sínum einhvers konar vöktun á þá hluti sem gæti alveg reiknað út hvað hver hefur fengið í sinn hlut eða hvað hann eigi að leggja mikinn kvóta á móti því sem hann hefur veitt. Það kann þó vel að vera að þarna séu einhver vandkvæði sem ég hef ekki áttað mig á. Ég tel hins vegar að þetta sé mál sem þurfi að fara yfir og menn þurfi að gera þessa hluti býsna nákvæmt vegna þess að þetta kerfi gerir aflaheimildirnar svo óskaplega verðmætar. Það er það sem veldur því að menn eru þá að breyta háttum sínum vegna kerfisins en ekki vegna þess hvað hentar þeim og væri eðlilegt að þeir gerðu.

Þess vegna finnst mér að það eigi að fara yfir þetta. Ég fagna því hins vegar, sem er aðalatriði málsins, að endurskoðunin á stuðlunum hvað varðar veiðar fullvinnsluskipanna er á leiðinni. Ég vona sannarlega að það verði þá meiri friður um þá stuðla þegar fyrir liggur hvað kemur út úr þeirri skoðun.