Áhrif lögfestingar stjórnarfrumvarpa á byggða- og atvinnuþróun

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 15:24:19 (832)

2000-10-19 15:24:19# 126. lþ. 14.12 fundur 103. mál: #A áhrif lögfestingar stjórnarfrumvarpa á byggða- og atvinnuþróun# þál., Flm. MS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[15:24]

Flm. (Magnús Stefánsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál., sem er á þskj. 103, um mat á áhrifum lögfestingar stjfrv. á byggða- og atvinnuþróun. Flutningsmenn tillögunnar, auk þess sem hér stendur, eru hv. alþm. Einar K. Guðfinnsson, Ísólfur Gylfi Pálmason, Kristinn H. Gunnarsson, Hjálmar Árnason, Gísli S. Einarsson og Árni Steinar Jóhannsson.

Tillagan var áður lögð fram á 123. löggjafarþingi en var ekki rædd. Tillagan er nú flutt á ný með smávægilegum breytingum.

Herra forseti. Eins og allir vita hefur þróun byggða og búsetu í landinu verið á þann veg undanfarin ár að þúsundum fleiri einstaklingar hafa flutt búferlum af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins en til landsbyggðarinnar. Sú þróun hefur haft í för með sér margvíslegar breytingar í þjóðfélagi okkar og því hafa fylgt ýmiss konar vandamál sem munu að líkindum verða mun meiri og erfiðari úrlausnar í framtíðinni ef hún heldur áfram. Afleiðingar hennar birtust okkur í ýmsum myndum. Mikil verðmætasóun á sér stað víða á landsbyggðinni vegna fólksfækkunar á stórum svæðum og mikill byggðavandi birtist okkur á höfuðborgarsvæðinu, nefnilega þannig að ráðast þarf í gríðarlegar fjárfrekar framkvæmdir og uppbyggingu á mörgum sviðum til að mæta fólksfjölgun á þessu afmarkaða svæði.

Byggðaþróun hefur haft mikil áhrif á atvinnulíf víða á landsbyggðinni sem á höfuðborgarsvæðinu en einnig má leiða rök að því að breytingar á atvinnulífi hafi haft áhrif til byggðaþróunar undanfarinna ára. Þessu öllu saman fylgir mikil félagsleg röskun. Er nú svo komið á ákveðnum landsvæðum að félagsleg staða íbúanna er farin að valda ákveðnum vanda vegna mikillar fækkunar fólks að undanförnu.

Mikið hefur verið fjallað um hvað veldur þessari þróun og margt hefur verið dregið fram í því sambandi eins og umræður um byggðamál bera vitni á síðustu árum. Ljóst má vera að lögfesting einstakra lagafrumvarpa á Alþingi getur haft bein og óbein áhrif á þróun byggðar og atvinnulífs í landinu til lengri og skemmri tíma. Sem dæmi um þetta má nefna að fjárlög hvers árs eru stefnumótandi um það hvernig ráðstafa eigi fjármunum ríkissjóðs í hina ýmsu málaflokka. Ákvæði fjárlaga um útgjöld í einstökum málaflokkum geta haft einföld og bein áhrif á byggðaþróun jafnt til lengri sem skemmri tíma. Þannig geta fjárlög stuðlað að sterkari stöðu byggðanna á sama hátt og áhrif fjárlaga geta orðið til að veikja byggðirnar.

Lögfesting stjfrv. í einstökum málaflokkum hefur einnig haft bein áhrif á þróun byggða. Nefna má einstaka málaflokka í því sambandi en því má halda fram að þetta eigi við um nánast alla málaflokka. Því er afar mikilvægt að mat á áhrifum lagasetningar á byggða- og atvinnuþróun liggi fyrir bæði þegar frumvörp eru unnin og eins við umfjöllun Alþingis um þau.

Eins og þingheimur þekkir eru stjórnarfrumvörp unnin að frumkvæði ráðuneyta. Oft koma viðkomandi hagsmunaaðilar að vinnslu mála að einhverju leyti. Pólitískir samherjar hafa samráð um málin og í einstaka tilfellum koma almennir þingmenn að vinnslu frumvarpanna. Áður en lokið er við að vinna stjfrv. gefur fjmrn. umsögn um áhrif viðkomandi frumvarpa á tekjur og gjöld ríkissjóðs. Á sama hátt hlýtur að vera nauðsynlegt að skoðað sé hvaða áhrif lögfesting frumvarpa getur haft á byggða- og atvinnuþróun, ekki síst í ljósi þeirrar þróunar sem verið hefur í þeim málum og þeirrar stöðu sem við blasir.

Þegar mótuð er stefna um ákvæði frumvarpa á fyrstu stigum vinnslu þeirra er mikilvægt að þeir sem að þeirri vinnu koma geri sér sem besta grein fyrir áhrifum þeirra eftir að frumvörp verða að lögum. Færa má rök fyrir því og eflaust nefna til dæmi um að hagsmunir íbúa og atvinnulífs á landsbyggðinni hafi verið látnir víkja fyrir öðrum hagsmunum, jafnvel án þess að þeir sem vinna að málinu geri sér grein fyrir því. Í því sambandi má nefna fjárhagslega hagsmuni í tengslum við útgjöld ríkissjóðs sem lúta tölulegum lögmálum en í slíkum tilvikum skortir oft á að hugað sé að heildarhagsmunum til lengri tíma litið. Við slíkar aðstæður er líklegt að áhrif lagasetningar hafi orðið til að ýta undir byggða- og atvinnuþróun undanfarinna ára.

Einnig má nefna sem dæmi að þegar unnið er að smíði frumvarpa sem fela í sér stofnun nýrra stofnana eða ný störf er mikilvægt að hugað sé að staðsetningu þeirra. Leiða má líkur að því að a.m.k. til skamms tíma hafi nánast verið litið á það sem sjálfgefið að slík starfsemi væri staðsett á höfuðborgarsvæðinu eftir lögfestingu viðkomandi frumvarpa. Stjórnsýslan og framkvæmdarvaldið hefur að langmestu leyti aðsetur á höfuðborgarsvæðinu. Starfsmenn þess og embættismenn eru langflestir búsettir á því svæði og hafa margir hverjir takmarkaðan skilning á aðstæðum og hagsmunum landsbyggðarinnar. Þessir aðilar ráða miklu um útfærslu lagafrumvarpa, hafa hagsmuni landsbyggðarinnar kannski ekki efst í huga við frumvarpsgerðina eða þegar þeir fjalla um ýmis atriði á sviði framkvæmdarvaldsins. Ekki skal fullyrt að þetta sé algengt en líklegt er að svona hafi málum oft verið háttað.

Nú kann einhver að spyrja að því hvort með framansögðu sé verið að skella allri ábyrgð á áhrifum lagasetningar á embættismenn og starfsmenn framkvæmdarvaldsins og þeir beri ábyrgð á byggðaþróun sem orðið hefur þess vegna. Svo er ekki. Pólitískir ráðamenn og ráðherrar viðkomandi ráðuneyta bera að sjálfsögðu pólitíska ábyrgð. Hins vegar er verið að ítreka mikilvægi þess að þeir sem vinna að smíði frumvarpanna hugi að þessum málum og geri sér sem best grein fyrir áhrifum þeirrar vinnu.

Herra forseti. Þegar meta á afleiðingar lögfestingar lagafrv. á byggða- og atvinnuþróun í landinu má telja eðlilegt að Byggðastofnun sé falin sú vinna. Starfsmenn stofnunarinnar búa yfir alhliða þekkingu á málefnum og hagsmunum landsbyggðarinnar og í reynd landsins í heild og því má telja rökrétt að Byggðastofnun fái þau verkefni að leggja mat á þessi áhrif.

Herra forseti. Að lokinni fyrri umr. um þessa þáltill. legg ég til að henni verði vísað til iðnn. sem fjallar um byggðamál.