Endurgreiðsla sjónglerja og linsa fyrir börn og unglinga

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 15:43:08 (837)

2000-10-19 15:43:08# 126. lþ. 14.13 fundur 105. mál: #A endurgreiðsla sjónglerja og linsa fyrir börn og unglinga# þál., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[15:43]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég tel ákaflega mikilvægt að afla því máli stuðnings sem efni þessarar þáltill. felur í sér og því vil ég þakka flutningsmanni fyrir það og það viðhorf sem fram kemur í þessari þáltill.

Ég tel þó ástæðu til að vekja athygli á því að það er ekki í fyrsta sinn sem þetta mál kemur til þingsins. Það var flutt á 122. löggjafarþingi fyrir fjórum árum. Þá flutti ég það í frumvarpsformi ásamt nokkrum öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar. Þar var um að ræða breytingu á lögum um Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra þar sem efnisatriði þessarar þáltill. eru sett í frumvarpsbúning.

Ég tel ákaflega virðingarvert af varaþingmönnum sem koma hér inn í stuttan tíma að flytja slíkar þáltill. En ég tel að þingið sjálft eigi eins og kostur er að reyna að hafa frumkvæði að frumvarpsflutningi um það efni sem það telur brýnt að löggjafinn setji lög um. Ég segi það vegna þess að ég tel brýnt að löggjafarvaldið sýni styrk sinn gagnvart framkvæmdarvaldinu. Þess vegna vildi ég vekja athygli á því að það er tilbúið frv. í þingsölum um efni þáltill., en það var líka flutt á síðasta þingi og hefur nú verið endurflutt.

[15:45]

Það er alveg rétt sem fram kemur í þessari þáltill. og rakið er í ítarlegu máli í grg. sem ég hef flutt með því frv. sem liggur fyrir, að með núverandi fyrirkomulagi er gert upp á milli gleraugnanotenda eftir því af hvaða völdum sjónskerðingin er. Það er rétt hjá hv. þm. að nærsýnir einstaklingar hafa ekki fengið aðstoð þar sem nærsýni er venjulega ekki orsök starfrænnar sjóndepru. Eins er mikill mismunur á þátttöku ríkisins í sjúkrahjálp eftir því hvort í hlut eiga sjónskertir eða heyrnarskertir. Eins og hv. þm. tók dæmi um og einnig kemur fram í frv. mínu þá er þátttaka ríkisins einnig töluverð vegna tannlæknakostnaðar. Þannig stendur þetta mál eftir og engin ástæða til þess að mismuna í því efni, heyrnarskertir fá töluverða aðstoð frá ríkinu sem vissulega er eðlilegt og nauðsynlegt en það þarf að rétta hlut sjónskertra.

Það hamlar að miklu leyti og getur valdið börnum ýmsum félagslegum óþægindum að búa við sjóndepru, svo sem í skólagöngu og fleiri félagslegum þáttum. Því er full ástæða til þess að hið opinbera taki þátt í að bæta þar úr líkt og hjá heyrnarskertum.

Samkvæmt upplýsingum frá Augnlæknafélagi Íslands er sjónlag ættarfylgja og því algengt að systkin noti bæði eða öll gleraugu. Börn ráða ekki hvernig foreldrar ráðstafa heimilistekjum og geta því ekki tekið ákvörðun um það sjálf að kaupa sér gleraugu og skera niður annars staðar. Samkvæmt upplýsingum Augnlæknafélags Íslands koma foreldrar sjaldnar en ella með börn sín í augnskoðun vegna þess hve dýrt er að kaupa gleraugu fyrir börn, komi í ljós að þau þurfi á þeim að halda. Þannig mæla öll rök með þessu. Ég vil vekja athygli á því að það er ekki gerður neinn greinarmunur á því af hvaða orsökum heyrnarskerðing stafar eins og raunin virðist varðandi sjónskerðingu.

Ég vil líka nefna að samkvæmt upplýsingum Augnlæknafélags Íslands hefur sjón ungra Íslendinga hrakað mjög undanfarin ár og nærsýnum fjölgað umtalsvert, sérstaklega í grunn- og framhaldsskólum. Ég hef látið gera úttekt á kostnaði við það fyrirkomulag sem mælt er með í þáltill. Í frv. mínu kemur fram ítarlegt kostnaðarmat á þeirri leið sem hv. þm. leggur til en lögfesting frv. mundi kosta ríkið um 50 millj. kr. árlega, miðað við þær forsendur sem þekktar eru, þ.e. um sjón þessa hóps og meðalkostnað við endurgreiðslu sjónglerja í lækningaskyni hjá Sjónstöð Íslands. Reikna má með 12--15% barna yngri en 18 ára þurfi að nota gleraugu og meðalkostnaður við endurgreiðslu sjónglerja hefur verið um 9.750 kr. á hvert par sjónglerja og tveir þriðju hlutar þess eru um 7.300 kr. Börn undir 18 ára aldri eru 80 þús. og samtals nota því um 12 þús. börn gleraugu. Af þeim fá nú þegar um 1.300 endurgreiðslur af læknifræðilegum orsökum. Kostnaður eykst því um 80 millj. árlega miðað við að allir þyrftu ný gleraugu á hverju ári og miðað við það sem þegar er greitt af tryggingunum þá yrðu viðbótarútgjöld um 50 millj. kr. árlega.

Ég vildi láta þetta koma fram við þessa umræðu. Ég þakka líka, þar sem frv. mitt hefur verið flutt áður á tveimur þingum eða alveg frá því fyrir fjórum árum síðan, þann stuðning sem fram kemur hjá hv. þm. og þykist viss um að hann hefur þá borið þetta mál upp í Framsfl. Ég geri ráð fyrir því að þetta mál hafi þá fullan stuðning þar og ítreka að það er eðlilegra, sé vilji og meiri hluti fyrir því hér á Alþingi að bæta réttindi barna sem þurfa á gleraugum að halda, að samþykkja frv. bæði vegna þess að Alþingi á að hafa frumkvæði í lagasetningu og eins mundi það flýta fyrir því að málið kæmist til framkvæmda.