Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 15:58:28 (841)

2000-10-19 15:58:28# 126. lþ. 14.8 fundur 77. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (framlög til menningarmála o.fl.) frv., Flm. ÁE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[15:58]

Flm. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Á þskj. 77 flyt ég frv. til laga um tekjuskatt og eignarskatt ásamt hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur, Rannveigu Guðmundsdóttur, Guðrúnu Ögmundsdóttur og Össuri Skarphéðinssyni.

Tilgangur frv. er að efla menningu, kvikmyndagerð og vísindi með tilteknum skattalegum aðgerðum. Í 1. gr. frumvarpsins er gerð tillaga um lögfestingu þess að lögaðilar megi draga tvöfalda þá fjárhæð frá tekjum sem þeir verja til menningarmála, kvikmyndagerðar og vísindastarfsemi. Þetta hvetur fyrirtæki til að auka framlög sín, enda lækka skattskyldar tekjur þeirra þar með.

Við getum tekið dæmi: Ef fyrirtæki gefur 100 þús. kr. til menningar- og vísindastarfsemi má það samkvæmt frv. draga 200 þús. kr. frá útgjöldum en einungis 100 þús. kr. samkvæmt núgildandi lögum. Þessi aðferð hvetur fyrirtæki til að styðja við menningu og vísindi. Flutningsmenn telja brýnt að sú aðferð að heimila aukinn frádrátt verði reynd hérlendis en frv. felur ekki í sér neina hættu á tekjutapi fyrir ríkissjóð umfram það sem er í gildandi lögum.

Í frv. er fjallað um að undir menningarstarfsemi falli hvers konar menningarstarfsemi fyrir almenning, svo sem fræðiritaútgáfa, fræðslumyndagerð, bóka-, skjala-, lista- og minjasöfn, bókmennta- og listastarfsemi.

[16:00]

Með vísindastarfsemi er átt við starfsemi innan æðri menntastofnana, t.d. mundu framlög fyrir tæki til eflingar rannsóknum og kennslu innan háskóla falla undir þetta frv.

Flutningsmenn telja brýnt að um framlög til kvikmyndagerðar eigi að gilda sömu ákvæði og um framlög til annarrar menningarmálastarfsemi. Í kvikmyndaiðnaði felast mikilvæg sóknarfæri og það er réttur kvikmyndagerðarmanna að mati flutningsmanna að nýta sér þá frádráttarmöguleika sem frv. gerir ráð fyrir.

Einnig má benda á, herra forseti, að ríkisvaldið fær til baka vegna aukinna umsvifa allt það fjármagn sem það veitir í gegnum Kvikmyndasjóð. Þá er ótalinn sá ávinningur sem kvikmyndagerð hefur í ferðaþjónustu, en það hefur verið skoðað, herra forseti, að tekjur ríkissjóðs vegna ferðamanna sem ákváðu Íslandsferð eftir að hafa séð íslenska kvikmynd eða þátt í sjónvarpi eru taldar vera um 400 millj. kr. á ári eða álíka upphæð og varið hefur verið í Kvikmyndasjóð.

Kvikmyndagerð getur þannig orðið umfangsmikill og arðbær atvinnuvegur og eins og menn þekkja, herra forseti, hafa íslenskir kvikmyndagerðarmenn oft sýnt að starf þeirra jafnast á við það besta sem gert er í heiminum. Þess vegna er brýnt þegar horft er til framtíðar að stuðla að eflingu þessarar atvinnu- og listgreinar, eins og samþykkt frv. mundi leiða til. Benda má á, herra forseti, að sú aðferð sem hér er lögð til hefur víða verið reynd erlendis með góðum árangri.

Vert er að vekja sérstaka athygli á því að samþykkt frv. mun efla bókmenntir og ýmiss konar annað liststarf, svo sem leiklist, tónlist, myndlist og starfsemi safna, en allir þessir málaflokkar falla undir hin ívilnandi ákvæði frv.

Frumvarpinu er ætlað að leiða til aukinna framlaga til menningarmála, kvikmyndagerðar og vísindalegra rannsókna og auðvelda aðilum sem að þeim starfa að afla fjár, einfaldlega vegna þess að það er hagkvæmt fyrir viðkomandi fyrirtæki og aukin tengsl milli atvinnulífs og menningar- og vísindaheims eru af hinu góða.

Svipuð ákvæði þekkjast víða erlendis og þá einnig í tengslum við rannsóknar- og þróunarstarfsemi, en stuðningur fyrirtækja við menningu og vísindi hefur aukist undanfarin ár hérlendis eins og annars staðar. Sjálfsagt er að hlúa m.a. að frjálsum félagasamtökum á þessu sviði með þeirri útfærslu sem frv. gerir ráð fyrir.

Á 121. löggjafarþingi var eldri útgáfa frv. send til umsagnaraðila og fékk hún þá mjög jákvæðar umsagnir frá aðilum sem þekkja vel til mála. Aukin framlög til þessara málaflokka, þ.e. menningar, kvikmynda og vísinda, leiða til aukinna umsvifa sem síðar skila tekjum í ríkissjóð. Þannig er líklegt að ívilnun á þessu sviði, eins og gert er ráð fyrir í frv. leiði til aukningar á tekjum ríkisins, auk þess að auðga menningarlíf og vísindastarf.

Herra forseti. Ég geri það að tillögu minni að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.