Almannatryggingar

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 16:09:02 (843)

2000-10-19 16:09:02# 126. lþ. 14.9 fundur 78. mál: #A almannatryggingar# (tryggingaráð) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[16:09]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Frumvarpið sem hv. þm. Ágúst Einarsson flytur hér í þriðja sinn kom eins og segir í grg. til heilbr.- og trn. eftir umræðu á 122. þingi og var þá sent út til umsagnar. Eins og sést í grg. fékk þetta þingmál mjög jákvæðar umsagnir. Það eina sem virtist eitthvað hamla því að málið færi til samþykktar var að á þeim tíma var tryggingaráð með verkefni sem mönnum þótti kannski ekki eðlilegt að þessir hópar kæmu að, en það var þá úrskurðaraðili í kærumálum.

Frá því að þetta frv. kom fram síðast hefur orðið breyting á almannatryggingunum þannig að nú hefur verið sett á laggirnar sérstök úrskurðarnefnd. Það ætti ekkert að koma í veg fyrir að þetta frv. nái fram að ganga. Það er sanngirnismál að þessir hópar, sem eru stærstu viðskiptavinir Tryggingastofnunar, fái fulltrúa sína í yfirstjórn stofnunarinnar og sjónarmið þeirra fái þar að heyrast því að eins og hv. þm. Ágúst Einarsson kom að hér í máli sínu eru verkefni tryggingaráðs fjölþætt. Þar eru einnig settar ýmsar vinnureglur og farið yfir ýmsar aðrar reglur sem farið er eftir í stofnuninni og það er mjög mikilvægt að fulltrúar bæði aldraðra og öryrkja komi að þeirri reglusetningu. Oftar en ekki hefur orðið ágreiningur um slíka reglusetningu þegar ekki hefur verið leitað til þessara hópa. Það er því full ástæða til að þeir fái þarna fulltrúa.

Herra forseti. Ég vil taka undir efni frv., enda er ég einn af flutningsmönnum þess og vonast til að hv. heilbr.- og trn. afgreiði málið til þingsins. Það er orðið ansi hvimleitt að aldraðir og öryrkjar þurfi sífellt að vera að minna á rétt sinn og kjör í samfélaginu og að mínu áliti, herra forseti, tel ég það lágmark að þeir fái a.m.k. þá réttarbót að eiga fulltrúa sína í yfirstjórn Tryggingastofnunar ríkisins.