Almannatryggingar

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 16:14:53 (845)

2000-10-19 16:14:53# 126. lþ. 14.9 fundur 78. mál: #A almannatryggingar# (tryggingaráð) frv., Flm. ÁE
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[16:14]

Flm. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég vil einungis í lok umræðunnar þakka þeim hv. þm. sem hafa tjáð sig um málið. Ens og kom fram í máli hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur má segja að eðlilegri forsendur séu til að málið nái fram að ganga núna en var fyrir tveimur árum eða svo. Það reynir þá á hinn pólitíska vilja meiri hlutans á hinu háa Alþingi, hvort menn telji að þessi réttarbót nái fram að ganga. Ég treysti því að hv. heilbr.- og trn. láti reyna á það og reyni þá frekar að láta málið koma til afgreiðslu og atkvæðagreiðslu í þingsölum en láta málið daga uppi. Málið er einfalt. Það er ekki flókið mál að fjölga í tryggingaráði um tvo. Og ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir stuðning við málið. Ég veit ekki hvort sú afstaða þýðir að þar með sé Sjálfstfl. á móti málinu, en það er kannski ekki rétt, herra forseti, að hafa í flimtingum eins alvarlegt mál og hér er heldur þakka það sem vel er gert. Hv. þm. rökstuddi líka efnislega vel af hverju hann teldi frv. vera til bóta.

[16:15]

Ég legg að lokum áherslu á það enn og aftur, herra forseti, að þingið sem slíkt, og vil beina því til forseta, á að hlutast til um að svona mál, einföld og skýr mál, sem menn geta reyndar haft mismunandi skoðanir á pólitískt, komi aftur úr nefndum og komi þá til atkvæðagreiðslu á hinu háa Alþingi.