Samkeppnishæf menntun og ný stefna í kjaramálum kennara

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 16:16:54 (846)

2000-10-19 16:16:54# 126. lþ. 14.10 fundur 92. mál: #A samkeppnishæf menntun og ný stefna í kjaramálum kennara# þál., Flm. ÁE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[16:16]

Flm. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 92 sem ég flyt ásamt sjö öðrum hv. þm. úr þingflokki Samfylkingarinnar. Tillagan fjallar um samkeppnishæfa menntun og nýja stefnu í kjaramálum kennara og hún snýst um að Alþingi álykti að kjósa nefnd til að vinna að tillögum um menntamál og efla þannig menntun og skólastarf hérlendis til að standast alþjóðlegan samanburð. Eftirfarandi markmið eru sett að leiðarljósi í þeirri tillögugerð:

a. auka fjármagn til menntamála til samræmis við nágrannalöndin, einkum norrænu löndin,

b. fjölga þeim sem ljúka framhaldsskólaprófi,

c. lækka útskriftaraldur úr framhaldsskólum um eitt til tvö ár,

d. gera fjölþjóðlegan samanburð á kjörum og vinnutíma kennara,

e. bæta kjör kennara samhliða bættu skólakerfi á alþjóðlegum mælikvarða,

f. verja álíka fjármagni til háskólastigsins og nágrannalöndin,

g. tengja öll heimili og skólastofur netinu og efla rafræn bókasöfn.

Á þessu sést, herra forseti, að lagt er upp með metnaðarfull markmið og einnig er lagt upp með að Alþingi kjósi þessa nefnd sem sýnir þá stefnu jafnaðarmanna að Alþingi eigi að hafa frumkvæði í þessum efnum.

Gert er ráð fyrir að í nefndinni sitji fulltrúar samtaka á sviði skólamála, svo sem frá félögum kennara, nemenda og skólastjórnenda, fulltrúar einstakra skólastiga, helstu skóla, sveitarfélaga, bókasafna og samtaka foreldra, svo og fulltrúar samtaka á vinnumarkaði. Það er því augljóst, herra forseti, að hér er lagt upp með stórsókn í menntamálum sem flutningsmenn telja að sé eitt mikilvægaasta verkefni samtímans. Mikið vantar á á mörgum sviðum að við séum með sambærilega stöðu og aðrir og við viljum þjóðarsátt til að efla menntakerfið og gera það samkeppnishæft við nágrannalöndin.

Flutningsmenn telja það skynsamlega aðferðafræði að setja sem viðmið í menntamálum það sem best gerist erlendis og það er í fyrsta skipti, herra forseti, sem það er gert svona nákvæmt eins og lýst er í tillögunni. Tillögunni er fyrst og fremst ætlað að taka mið af samanburði við útlönd og skipun nefndarinnar af fólki sem vel til þekkir er líka til marks um að hér eiga vönduð vinnubrögð að vera í fyrirrúmi.

Flutningsmenn, sem eru allir í þingflokki Samfylkingarinnar, byggja á stefnumótum Samfylkingarinnar eins og hún kom fram á stofnfundi hennar sl. vor og líka þeirri vinnu sem flokkar sem stóðu að stofnun Samfylkingarinnar höfðu mótað á undanförnum missirum.

Samfylkingin vill stórauka fjárfestingu í menntun til að auka samkeppnishæfni þjóðarinnar á alþjóðamarkaði og bæta lífskjör og mannlíf á Íslandi. Við í Samfylkingunni viljum hindra að stéttaskipting verði meðal þeirra sem fá tækifæri til að afla sér menntunar og hinna sem ekki fá slíkt tækifæri. Þess vegna leggur Samfylkingin höfuðáherslu á að tryggja aðgang allra að þeirri þekkingu sem nú byltir fyrri atvinnuháttum. Það eru sameiginlegir hagsmunir hins opinbera, samtaka launafólks og atvinnufyrirtækja að veita fólki möguleika á símenntun og starfsmenntun. Flutningsmenn telja að efling starfsmenntunar í atvinnulífinu stuðli að bættum hag starfsfólks og fyrirtækja og sé ein meginleið þeirra sem ekki finna að öðru leyti úrlausn í almennu skólakerfi. Fólk í atvinnulífinu verður að eiga kost á símenntun, ekki hvað síst ófaglært starfsfólk, enda verður menntakerfið að ná til allra.

Við lítum svo á, herra forseti, að menntamál sé hið nýja almannatryggingakerfi jafnaðarmanna. Starf nefndarinnar krefst margvíslegrar gagnaöflunar og er bent á að byggja á svörum við ýmsum spurningum við mótun tillögunnar. Alþjóðlegur samanburður er sífellt að verða betri og meira lagt upp úr honum í þjóðmálaumræðu erlendis. Þess vegna vekur það meiri furðu, herra forseti, hversu litlu er skilað af upplýsingum til alþjóðlegra stofnana af hálfu Íslands eins og raun ber vitni, t.d. til OECD, en ábyrgir aðilar fyrir þessu eru menntmrn., Þjóðhagsstofnun og Hagstofa. Ein af tillögum nefndarinnar er að bæta úr þessum upplýsingaskorti til alþjóðlegra stofnana.

Helsti mælikvarði í alþjóðlegum samanburði er að líta til þess hve miklum fjármunum er varið til menntamála sem hlutfall af landsframleiðslu. Landsframleiðslan á þessu ári er áætluð 680 milljarðar. Við vörðum á viðmiðunarári, sem er byggt á nýjasta samanburði frá OECD-gögnum sem komu út á þessu ári, 5,1% af landsframleiðslunni til menntamála og við vorum þar í 13. sæti af 28 ríkjum. Svíþjóð varði á þessu viðmiðunarári 6,8% af landsframleiðslunni til menntamála, Noregur 6,6%, Danmörk 6,5% og Finnland 6,3%. Jafnvel, herra forseti, þó að við hækkuðum hlutfall okkar um eitt prósentustig, sem kostar tæpa 7 milljarða og það eru engin teikn á lofti um að við ráðumst í slíkt, þá erum við enn langt frá því að ná öðrum Norðurlöndum. Þetta sýnir kannski betur en margt annað hvað við höfum verið að dragast aftur úr.

Eitt helsta vandamálið í íslensku menntakerfi er hversu fáir hafa lokið framhaldsskólaprófi í samanburði við önnur lönd. Í ljós hefur komið að í meira en áratug hefur það legið fyrir að allt að þriðjungur þeirra sem hefja nám í framhaldsskóla hverfur frá því án þess að ljúka námi formlega og aðgerðir til að bæta úr þessu hafa borið lítinn árangur. Einungis 55% landsmanna hafa lokið framhaldsskólaprófi og við erum í 21. sæti af 29 þjóðum OECD. Meðaltal allra þjóða er 61% og við erum langt fyrir neðan meðaltal í þessum efnum. Norðurlandaþjóðir, sem við berum okkur oft saman við, einkum á hátíðarstundum, eru með útskriftarhlutföll upp á 76%, við með 55% og sést enn og aftur hversu langt við höfum dregist aftur úr.

Herra forseti. Sýnt hefur verið fram á beint samband milli hagvaxtar og fjölda þeirra sem sækja framhaldsskóla í einstökum löndum. Þannig getum við einfaldlega aukið hagvöxt og bætt lífskjör ef fleiri stunda nám í framhaldsskólum og ljúka því. Við viljum því hækka þetta hlutfall og leggjum til tilteknar aðgerðir í þeim efnum.

Við viljum líka, herra forseti, að aflað verði gagna um kostnað á hvern nemanda á einstökum skólastigum en ekki hefur verið skilað inn gögnum til að slíkur alþjóðlegur samanburður geti átt sér stað. Í tillögunni kemur einnig fram að meðalaldur við lok framhaldsskóla er 20 ár en meðaltalið innan OECD er 18 ár. Við erum þarna í efsta sæti af OECD-ríkjum og þó að ekki sé rétt að alhæfa um kosti útskriftaraldurs, enda er oft erfitt að bera þetta saman, bendir þó margt til þess að skynsamlegt sé að lækka útskriftaraldur úr framhaldsskóla til samræmis við það sem er algengt erlendis. Slíkt krefst uppstokkunar í skólakerfinu, grunnskólum og framhaldsskólum. En við teljum að slík uppstokkun sé nauðsynleg, m.a. til að bæta kjör kennara.

Við leggjum upp með nýja kjarastefnu í tillögunni. Við höfum skoðað laun íslenskra grunnskólakennara í alþjóðlegum samanburði og þar kemur í ljós að íslenski kennarinn er í 14. sæti af 26. Við leggjum til að samanburður verði gerður á launakjörum og vinnutíma kennara hérlendis og erlendis. Rétt er að vekja athygli á því að samkvæmt könnun Félags grunnskólakennara kom í ljós að tæpur fjórðungur kennara í grunnskólum er í annarri launaðri vinnu á veturna samhliða skólastarfinu.

Við leggjum til, herra forseti, að í kjaraviðræðum sem nú eru í gangi við samtök kennara verði höfð til hliðsjónar sú stefnumótun sem kemur fram í tillögunni, að efla íslenska menntakerfið í samanburði við önnur lönd. Það hefur í för með sér uppstokkun í skólastarfi.

Með þessum hætti er brotið í blað í kjarabaráttu hérlendis þar sem í fyrsta lagi er gert átak til að bæta þá mikilvægu opinberu þjónustu sem skólastarfið er, í öðru lagi er sú endurbót tengd góðum árangri á heimsmælikvarða og í þriðja lagi taki launakjör starfsmanna mið af slíku. Jafnaðarmenn telja þetta farsæla leið til eflingar skólastarfi sem stuðli að bættum kjörum með endurskipulagningu og er í fullu samræmi við markmið jafnaðarmanna um stöðugleika í efnahagslífinu og ábyrga hagstjórn.

Ýmis teikn sýna að við höfum dregist aftur úr þó að ekki eigi að alhæfa um það efni, eins og t.d. TIMSS-rannsóknin sýndi á sínum tíma, en upplýsingar um hana er einnig að finna í tillögunni. Á grunnskólastiginu komum við ekki vel út og það sýnir enn og aftur að við höfum dregist aftur úr.

Háskólaskýrsla sem var lögð fram árið 1997 að frumkvæði okkar jafnaðarmanna sýndi að við höfðum dregist mjög aftur úr öðrum þjóðum og á viðmiðunarárinu erum við hvað fjárframlög varðar í 23. sæti af 28 þjóðum og við verjum einungis 0,7% til háskólastigsins, en aðrar Norðurlandaþjóðir eru langt fyrir ofan okkur.

Í hinu nýja þekkingarsamfélagi ræður menntun mestu um hvernig lífskjör og búseta verður í framtíðinni og við verðum að tryggja gott menntakerfi til að ungt fólk setjist frekar að hér á landi en erlendis.

Það kemur sömuleiðis fram í alþjóðlegum samanburði að við erum slök í rannsóknum og þróun. Þar vantar tæplega þriðjung á að við náum meðaltali OECD-ríkja. Þó svo að aukning hafi orðið á því undanfarin ár erum við enn langt frá því að ná máli á alþjóðlegan mælikvarða. Við féllum í svissneskri samkeppnisskýrslu um sex sæti milli ára m.a. vegna þess hversu slök við erum í rannsóknum og þróunarvinnu.

Við jafnaðarmenn viljum gera kynslóðasamning um æsku þessa lands um framtíðina. Við teljum að það sé ekki einungis um að ræða mikilvægustu fjárfestinguna heldur er þetta samfélagsleg skylda okkar og við teljum að betri menntun og aukin samskipti auki líkur á friði í heiminum og meiri samstöðu milli þjóða og skapi þannig skilyrði fyrir réttlátari heimi. Jafnrétti kvenna og karla í menntun, starfi og samfélagi er rauði þráðurinn í stefnu jafnaðarmanna í mennta- og menningarmálum. Við viljum að allir eigi sömu möguleika til sambærilegrar menntunar og við viljum ekki samfélag þar sem menntun barna ræðst af efnahag foreldra. Jafnaðarmenn hafna skólagjöldum sem er mismunun einstaklinga á samfélaginu á sviði þar sem jafnræði er hornsteinn. Skólagjöld tryggja forgang hinna ríku að góðri kennslu en aðrir sitja eftir. Það er stefna sem hægri menn hér og erlendis hafa haldið fram en sem við jafnaðarmenn munu berjast gegn af alefli.

Við lítum svo á að menntun ljúki aldrei vegna þess að á starfsferli sérhvers einstaklings eru fundin upp 80--90% af þeirri vísinda- og tækniþekkingu sem menn nota og helmingur tækniþekkingar úreldist á hverjum tíu árum og helmingur tölvuþekkingar á hverjum tveimur árum. Við viljum sátt milli opinberra aðila og kennarastéttarinnar og að allir landsmenn fái annað tækifæri á sviði menntunar. Margir hafa hrökklast frá námi. Þennan hóp þyrstir í menntun og við viljum veita honum þá möguleika. Við viljum sömuleiðis byggja upp markvissari vinnu í að efla námsgagnagerð á íslensku, en þau mál hafa líka dregist aftur úr eins og annað í menntamálum hérlendis. Við teljum að efla eigi námsgagnagerð með auknum fjárframlögum, nýtingu nútímalegri tækni þannig að á því sviði höfum við einnig sambærilega möguleika og best gerist í öðrum löndum.

Herra forseti. Jafnaðarmenn telja að menntakerfið sé mikilvægasti þátturinn í að tryggja samkeppnishæfni landsins, einstaklinga og fyrirtækja. Samkeppni hefur aukist og betri menntun verður sífellt mikilvægara tæki fyrir einstök fyrirtæki og einstaklinga að skapa sér samkeppnisforskot.

Nýir möguleikar blasa við í menntamálum, hagnýting upplýsingasamfélagsins, aukin endurmenntun, fjarnám og aukin alþjóðavæðing í hinu nýja hagkerfi. Þessi tækifæri öll er ekki hægt að nýta nema til komi ný menntastefna og snúið sé af braut metnaðarleysisins sem einkennt hefur menntamál í tæpa tvo áratugi. Jafnaðarmenn í Samfylkingunni eru reiðubúnir til að leiða þá stefnubreytingu.