Samkeppnishæf menntun og ný stefna í kjaramálum kennara

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 16:40:02 (848)

2000-10-19 16:40:02# 126. lþ. 14.10 fundur 92. mál: #A samkeppnishæf menntun og ný stefna í kjaramálum kennara# þál., BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[16:40]

Björgvin G. Sigurðsson:

Herra forseti. Þáltill. þeirri sem hér er til umræðu ber að fagna, enda um merka tillögu að ræða sem tekur á flestum vandamálum íslenska menntakerfisins líkt og flutningsmaður gerði grein fyrir áðan. Það verður aldrei of oft sagt að leiðin til að tryggja fólki jöfn tækifæri í lífinu byggist á aðgangi að menntun. Í flóknu þekkingarsamfélagi framtíðarinnar verður menntakerfið helsta jöfnunartækið og því viljum við jafnaðarmenn auka fjárfestingu í menntun verulega eins og fram kemur í þessari viðamiklu, metnaðarfullu og merku þáltill. hv. þm. Ágústs Einarssonar.

Íslenskt menntakerfi er fjársvelt til tjóns til margra ára eins og dæmin sanna og fram kemur í þáltill. Til dæmis má nefna að íslenskt menntakerfi fékk minna fjármagn sem hlutfall af landsframleiðslu árið 1998 en það gerði tíu árum áður. Opinber útgjöld til menntamála voru, eins og hv. þm. Ágúst Einarsson, nefndi áðan, 5,1% árið 1998, en voru 5,23% árið 1988. Íslenskir háskólar fá um helmingi minna fjármagn en háskólar á hinum Norðurlöndunum. Samkvæmt tölfræðihandbók um háskólastigið sem menntmrn. gaf út vorið 2000 ver íslenska ríkið aðeins um 0,72% af landsframleiðslu til háskólastigsins. Á meðan fá háskólar á öllum hinum Norðurlöndunum tæplega helmingi hærra hlutfall eða frá 1,3--1,7%.

Menntunarstig Íslendinga er allt of lágt eins og fram kemur í þáltill. og er það eitt af því sem tillagan tekur á. Tæplega helmingur íslensku þjóðarinnar hefur aðeins grunnskólapróf, 40% íslenskra nemenda falla á samræmdu prófunum í 10. bekk grunnskólans. 30% íslenskra nemenda flosna upp úr framhaldsskólanámi. Í Háskóla Íslands er brottfallið upp undir 30%. Hlutfall einstaklinga á aldrinum 25--64 ára sem höfðu lokið námi á framhaldsskólastigi er lægst á Íslandi af öllum Norðurlöndunum eða einungis 55%. Um helmingur þjóðarinnar hefur einungis lokið grunnskólaprófi. Innan við 16% aldurshópsins 25--64 ára hefur lokið háskólaprófi. Þetta eru ömurlegar staðreyndir sem verður að breyta með róttækum aðgerðum og þær aðgerðir eru lagðar til í þeirri þáltill. sem hér var mælt fyrir áðan.

Eins er afar brýnt að stytta stúdentsnámið, en núverandi fyrirkomulag veldur því að íslenskir námsmenn standa jafnöldrum sínum í Evrópu langt að baki, enda munar allt að þremur árum á útskriftaraldri nemenda til stúdentsprófs á milli Evrópulandanna og Íslands eins og fram hefur komið. Samkvæmt tölum OECD ljúka Íslendingar framhaldsskólaprófi langelstir eða að meðaltali tveimur árum á eftir OECD-meðaltalinu. Slíkt hefur gífurleg áhrif á Íslendinga sem keppa ekki einungis um vinnu við aðra Íslendinga heldur alla Evrópubúa. Nú hefur nýleg skýrsla um samkeppnishæfni ríkja sýnt að Ísland hefur fallið um sex sæti frá því í fyrra og þar vega menntamálin þungt.

Brýnast af öllu er að stórauka menntun í tölvufræðum framhaldsskólanna, en í framhaldsskólum í dag eru einungis þrjár einingar af um 140 sem þarf til stúdentsprófs skyldugar til tölvunarfræða. Það segir sig sjálft að það er allt of lítið og verður að gera róttækar breytingar á því hið snarasta. Tölvukunnátta er lykilatriði á vinnumarkaði framtíðarinnar og eins og sakir standa er ekki verið að mennta unga fólkið sem skyldi í þeim fræðum.

Herra forseti. Á þessu og fjöldamörgu öðru tekur tillaga hv. þm. Ágústs Einarssonar og fleiri í þingflokki Samfylkingarinnar um samkeppnishæfa menntun og nýja stefnu í kjaramálum kennara. Kjör kennara eru til skammar og eru ein helsta ástæða slaks ástands á skólakerfinu íslenska.