Samkeppnishæf menntun og ný stefna í kjaramálum kennara

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 16:52:29 (850)

2000-10-19 16:52:29# 126. lþ. 14.10 fundur 92. mál: #A samkeppnishæf menntun og ný stefna í kjaramálum kennara# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[16:52]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum hér till. til þál. um að auka samkeppnishæfa menntun. Það er alveg ljóst að mikilvægi menntunar fer sívaxandi og ég held að allir séu sammála um það. Upplýsingaþjóðfélagið krefst þess að þjóðir séu vel menntaðar og gildi menntunar hér á landi hefur vaxið ótrúlega mikið á síðustu þrem, fjórum árum eftir að hér komu fyrirtæki sem byggja á menntun, eins og Íslensk erfðagreining og mörg önnur sem byggja útflutning á menntun en ekki á fiski eða öðrum efnislegum gæðum.

Sú tillaga sem við ræðum hér ber mikinn keim af fortíðinni. Það er rætt um að auka fjármagn. Aukið fjármagn þýðir ekki endilega meiri menntun. Það að tvöfalda fjármagn í einhverja grein þýðir ekki endilega að maður fái tvöfalt meira út úr henni, alls ekki. Ef stjórnun er ekki aukin og stjórnun og framleiðni ekki bætt þá gerist ekki neitt.

Hér er rætt um kjör kennara og að láta gera fjölþjóðlegan samanburð og slíkt og að tengja öll heimili og skólastofur netinu. Þetta er allt saman gott og gilt en þetta er allt saman fortíð. Þetta er bara kjarabarátta kennara eins og hún hefur verið og ekkert annað. Það er engin framtíð í þessu.

Það sem mér finnst vanta í þetta er í fyrsta lagi: Hvernig ætla menn að hverfa af þeirri braut meðalmennsku sem tröllríður menntakerfinu í dag? Duglegir kennarar og duglegir nemendur sjá ekkert liggja eftir sinn dugnað. Þeir njóta þess í engu. Það verður enginn var við duglegan kennara sem kennir af áhuga í skólastofunni. Það er enginn mælikvarði til eða neitt sem segir að þessi kennari sé sérstakur, og hann fær enga umbun umfram kennara sem ekkert leggur á sig. Og til hvers leiðir það? Eftir örfá ár gefst duglegi kennarinn upp og verður eins og allir hinir.

Sama á við um nemendur. Allir nemendur skulu vera jafnir, jafnlélegir. Ekkert er gert til að örva og hvetja duglega nemendur til þess að skila árangri. Reyndar er verið að gera tilraunir til þess núna sem síðasti ræðumaður, hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir, var nú að gagnrýna, þ.e. að koma með samræmd próf til þess að mæla á einhvern máta frammistöðu skóla, kennara og nemenda. Það hefur ekki mátt hingað til. Nú er farið að gera það, loksins. Og hv. þm. gagnrýndi það sem mér finnst þó ljósi punkturinn í því sem verið er að gera.

Þessi tillaga kemur ekkert inn á þá miklu breytingu sem ég sé fyrir mér í kennslumálum á næstu fimm árum, ekki á næstu áratugum heldur á næstu fimm árum, sem felst í notkun kennsluhugbúnaðar. Það er ekki orð um það. Hér er talað um rafræn bókasöfn en ekki orð um kennsluhugbúnað þar sem nemendurnir í litlum hópum, einn nemandi, tveir eða þrír, geta unnið saman að lausn verkefna við eina tölvu. Þetta er framtíðin. Þetta er nýsköpun og algjör umbylting á þeirri kennsluaðferð sem hefur verið.

Ef við lítum til ýmissa atvinnugreina þá hefur framleiðni orðið gífurlega mikil. Ég nefni t.d. skrifstofur. Framleiðnin á skrifstofunni hefur verið alveg gífurleg, framleiðni í sjávarútvegi, í iðnaði og alls staðar, en ekki í kennslu. Í grundvallaratriðum kenna menn enn í dag eins og fyrir tvö þúsund árum í Grikklandi hinu forna þar sem kennarinn sat undir tré með 20 nemendur í kringum sig. Ekkert hefur breyst, sama taflan, sama krítin. Menn eru kannski örlítið farnir að nota netið, örlítið.

Hér þarf að verða stórbreyting á. Það þarf að krefjast miklu meiri framleiðni í menntun og það gerum við með hjálp upplýsingatækninnar, með hjálp kennsluforrita sem gjörbreyta allri uppbyggingu kennslunnar. Það verða ekki lengur bekkir. Það verða ekki lengur árgangar. Það verða nemendur sem hafa áhuga á ákveðnu verkefni sem hópa sig saman og kennarar fylgjast með og örva nemendur til dáða. Ég held því að þessi tillaga sé eiginlega arfur úr fortíðinni. Hún tekur ekkert á þessu.

Það sem vantar í dag á Íslandi er að greiða kennurum, góðum og duglegum kennurum fyrir gerð kennsluhugbúnaðar í samvinnu við forritara, góða forritara sem eru sérfræðingar í gerð leikjaforrita. Ég hef fylgst með því hvað krakkar geta verið endalaust í einhverjum leikjaforritum. Hvatningin er alltaf til staðar. Ef hægt er að tengja svona leikjaforrit og kennsluforrit getur verið leikur að læra. Það getur verið leikur að læra ensku eða þýsku eða stærðfræði eða eðlisfræði, nákvæmlega eins og það er leikur að skjóta niður einhvern náunga í einhverjum skriðdreka í leikjaforriti. Þessu þurfum við að vinna að og það þýðir gjörbyltingu á menntakerfinu. Það er ekki tekið neitt á þessu í þessari tillögu.

Það sem við þurfum að gera er að koma með kerfi sem býr til greiðslur til þeirra sem búa til slíkan kennsluhugbúnað á netinu og að nemendur geti sótt þann kennsluhugbúnað frá sínum kennslustofum og þannig unnið sjálfstætt, hver og einn einasti nemandi á sínum hraða að sínu áhugasviði og hann fær stöðuga hvatningu frá forritinu sem uppeldisfræðingar og góðir kennarar og skapandi hafa búið til. Þetta sé ég að sé framtíðin og hún er eitthvað allt annað en þessi tillaga gerir ráð fyrir.

Það sem þarf að gera líka er að auka sjálfstæði skólanna, helst að einkavæða þá, og sjálfstæði kennaranna líka og koma með enn frekari mælikvarða á frammistöðu kennara, gæðaeftirlit á kennsluna eins og er gert í öllum öðrum greinum.

Þessi tillaga gerir ráð fyrir því að menntastefna sé sérmál vinstri manna eða Samfylkingarinnar. Auðvitað er ekki svo. Það er að sjálfsögðu jafnmikið áhugamál sjálfstæðismanna og annarra hér í þjóðfélaginu. (Gripið fram í: Hvar eru þeir?) Það er mjög mikið atriði og eiginlega eru allir sammála um að það er mjög mikið atriði að stuðla að góðri menntun barna okkar og símenntun fullorðinna líka, sem er mikilvægt. Ég held því að þessi tillaga sé arfur aftur úr fornöld. Menn þurfi að líta til nýrra kennsluhátta ef þeir ætla sér að skoða hvernig kennslan verður á næstu öld.