Samkeppnishæf menntun og ný stefna í kjaramálum kennara

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 17:11:08 (857)

2000-10-19 17:11:08# 126. lþ. 14.10 fundur 92. mál: #A samkeppnishæf menntun og ný stefna í kjaramálum kennara# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[17:11]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. heldur áfram fyrri iðju um að gera mönnum upp skoðanir. Ég sagði aldrei að það ætti að ryðja burt fólki. Ég sagði að það tæki mörg ár að ryðja burt þeirri vinstrimennsku sem hefur tekið yfir skólakerfið á undanförnum áratugum, ekki fólkinu, að sjálfsögðu ekki. Það eru viðhorfin, það er skipulagið sem þarf að breyta. Þetta er alls ekki spurningin um ,,Berufsverbot``, Jesús minn, það er alls ekki meiningin, heldur bara að viðhorfinu sé breytt, að litið sé til þess að duglegir og metnaðarfullir kennarar fái að njóta árangurs starfs síns, að duglegir og metnaðarfullir nemendur fái að njóta þess og sjá árangur starfs síns. Það er það sem menn vilja sjá. Samkeppnin verði aukin innan skólakerfisins og þáttur í því er að taka upp samræmd próf og koma á einhvers konar mati á því starfi sem er unnið í skólunum. Það hefur vantað. Það hefur ekki mátt skara fram úr, það hefur verið viðhorfið. Enginn hefur mátt skara fram úr í menntakerfinu, hvorki nemendur né kennarar. Þessu verður að breyta. Það tekur langan langan tíma að breyta þessum viðhorfum.