Samkeppnishæf menntun og ný stefna í kjaramálum kennara

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 17:33:38 (862)

2000-10-19 17:33:38# 126. lþ. 14.10 fundur 92. mál: #A samkeppnishæf menntun og ný stefna í kjaramálum kennara# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[17:33]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Aftur er verið að leggja mér orð í munn. Ég sagði ekki að opinber vísindi væru annars flokks vísindi. Ég sagðist bara ekki hafa trú á þeim sjálfur og það er bara allt annar handleggur. Ég hef bara ekki trú á þeim sjálfur. Ég má hafa þá skoðun og trú sem ég vil. Ég er ekkert að flokka þetta sem annars flokks vísindi.

Það að íslenskir námsmenn fái ekki góða einkunn í útlöndum þegar þeir koma þangað eftir 10--15 ára nám í íslensku menntakerfi, það getur ekki verið Sjálfstfl. að kenna, hann er ekki búinn að vera svo lengi við völd. Það tekur mörg ár að breyta þeim viðhorfum sem tröllríða íslensku menntakerfi. Það tekur mörg ár og áratugi að koma með ný viðhorf eins og þau að meta gildi samkeppni, meta gildi þess að duglegir kennarar og duglegir nemendur fái umbun fyrir starf sitt og dugnað, það eru viðhorf sem tekur langan tíma að breyta. Sú meðalmennska sem hefur tröllriðið hér að allir skulu vera jafnir, bæði kennarar og nemendur, það tekur langan tíma að breyta slíkum viðhorfum. Það er ekki spurning um að reka fólk eða eitthvað slíkt, heldur að þessi viðhorf séu viðurkennd, þ.e. að styðja duglega kennara og duglega nemendur.

Hvað varðar framlög til vísinda, þá er það miklu meira virði að búa atvinnulífinu þann ramma og þá umgjörð að fyrirtæki vilji stunda rannsóknir, að fyrirtæki hafi frelsi til að stunda rannsóknir og séu ekki í endalausri samkeppni við opinberar rannsóknir. Þetta er skoðun mín.