Samkeppnishæf menntun og ný stefna í kjaramálum kennara

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 17:35:25 (863)

2000-10-19 17:35:25# 126. lþ. 14.10 fundur 92. mál: #A samkeppnishæf menntun og ný stefna í kjaramálum kennara# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[17:35]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. þm. Pétri H. Blöndal um að skapa fyrirtækjunum umhverfi sem örvar þau til þess að fjárfesta í rannsóknum. Það hefur Samfylkingin gert og þingmenn hennar með því að leggja fram þingmál sem boða það að fyrirtæki sem það geri geti notað slík framlög til skattfrádráttar. Við erum því á sama máli í þessu, herra forseti.

Ég hlýt hins vegar að vera ósammála hv. þm. um að allar rannsóknir þurfi endilega að vera framkvæmdar af einkafyrirtækjum. Ég held t.d. að ákveðið samspil þurfi þar á milli. Ég held að það verði ákaflega erfitt að fá fjármagn til tiltekinna grunnvísinda, ákveðinna grunnrannsókna, nema fjármagn til þeirra komi frá ríkinu. Um þetta getum við deilt.

Herra forseti. Hv. þm. talaði um nauðsyn þess að umbuna kennurum sem gerðu góða hluti. Hverjum er umbunað í menntakerfinu í dag? Flokksbræðrum hv. þm. Péturs H. Blöndals. Þeir geta gengið inn af götunni, inn á skrifstofu hæstv. menntmrh. og fengið hann til að samþykkja áætlun um að búa til sérstaka hraðbraut innan framhaldsskólakerfisins sem gerir það að verkum að námsmenn geta lokið framhaldsskólanum á tveimur árum og við skattborgararnir eigum að borga kannski tvöfalt meira með þessum námsmönnum á hverju ári en greitt er t.d. með hverjum námsmanni við minn gamla skóla, Menntaskólann í Reykjavík. Er það einhver sanngirni? Er það kannski það sem hv. þm. kallar heiðarlega samkeppni? Að sjálfsögðu ekki? Ef fara á í slíka tilraunastarfsemi að byggja hraðbrautir, hvers vegna er það ekki gert við þá framhaldsskóla sem búa við áfangakerfi þar sem er auðvelt að gera það.

Herra forseti? Hvernig í ósköpunum stendur á því að menn þurfa að vera flokksbræður hæstv. menntmrh. til þess að fá þá umbun sem þarf til að geta búið til slíkar hraðbrautir? Í því felst ósanngirni, herra forseti, gagnvart framhaldsskólakerfinu, gagnvart námsmönnum og gagnvart kennurum.