Kynbundinn munur í upplýsingatækni

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 18:22:40 (876)

2000-10-19 18:22:40# 126. lþ. 14.16 fundur 123. mál: #A kynbundinn munur í upplýsingatækni# þál., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[18:22]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Ég er meðflutningsmaður þessarar þáltill. um aðgerðir til þess að draga úr kynbundnum mun í upplýsingatækni, sem hv. þm. Hólmfríður Sveinsdóttir er 1. flm. að.

Ég hef í sjálfu sér ekki miklu að bæta við ræðu hv. flm. Þar kom allt fram sem mestu máli skiptir er varðar kynbundinn mun í upplýsingatækni. Hins vegar er ég nokkuð hugsi yfir þeim orðaskiptum sem síðan hafa átt sér stað í salnum. Vissulega er það rétt eins og hv. þm. Stefanía Óskarsdóttir hefur tekið fram að ýmis átaksverkefni eru í gangi í samvinnu við fyrirtæki og margs konar aðila um að reyna að hafa áhrif á námsval kynjanna. En af upptalningu hv. þm. gat ég ekki betur heyrt en flest það væri miðað við nám á framhalds- eða háskólastigi.

En hér er nefnilega verið að reyna að glíma við vandann í grunninn, ef þannig má til orðs taka, með því að safna saman upplýsingum um kynbundinn mun á tölvunotkun íslenskra leikskóla- og grunnskólanemenda og að gera ítarlega könnun á orsökum þess að minni áhugi er meðal stúlkna en drengja á upplýsingatækni og tölvum almennt og að gera tillögur um aðgerðir sem hvetja stúlkur til að nýta upplýsingatækni, einkum tillögur um námsefni.

Ég verð að segja eins og er, herra forseti, að ég tel fulla þörf á því að farið sé í þessa vinnu. Það væri ánægjuleg tilbreyting á hinu háa Alþingi ef stjórnarliðar gætu einu sinni leyft sér að taka málefnalega og góðum tillögum sem þessari. Kannski á ég einhvern tímann eftir að lifa það en mér heyrist á öllu að svo verði ekki hvað varðar afgreiðslu þessarar tillögu.

Mig langar líka að víkja að því sem hv. flm. ræddi í sinni ræðu og það er hvernig við ættum að losna út úr þessum vítahring karllægra viðhorfa í tölvubransanum. Það litla sem ég hef kynnt mér þessi mál þá sýnist mér markaðssetningin og innihald tölvuleikja beinlínis vera gerð út á drengi. Það er gert út á ofbeldisleiki t.d. og það er gert út á ýmiss konar hasar sem af einhverjum ástæðum höfðar minna til stúlkna en drengja og það verður m.a. til þess að drengir fá af einhverjum ástæðum meiri áhuga á tölvuleikjunum fyrr en stelpurnar.

Mér fyndist mjög mikilsvert að reyna að rýna betur í ástæður þessa og ekki síst að rýna í þann frumskóg þessa iðnaðar sem ég held að sé ekki allur þar sem hann er séður, t.d. er ljóst að ýmislegt er markaðsett með mjög vafasömum hætti fyrir börn, svo ég komi nú inn á það, herra forseti, og það væri mjög fróðlegt, í það minnsta fyndist mér það, ef það væri m.a. skoðað með tilliti til tölvuleikja og hver munurinn er á notkun þeirra meðal stúlkna og drengja.

Annað hafði ég ekki hugsað mér að leggja til málanna í þessari umræðu að svo stöddu. En mig langar hins vegar og get ekki stillt mig um, herra forseti, að draga fram litla úrklippu sem ég fann á baksíðu DV fyrr í þessari viku. Mér finnst hún eiginlega lýsa því sem ég vil kalla karlssýki þekkingariðnaðarins í hnotskurn. Víða birtist hún, en hvergi eins og í þessari litmynd af tveimur ungum fáklæddum stúlkum sem sitja hér á sandbing og voru að leika blak. Það væri kannski í góðu lagi ef þessar stúlkur hefðu ekki vakið, með leyfi herra forseta:

,,... verðskuldaða athygli þar sem þær spiluðu strandblak á Agora, alþjóðlegri fagsýningu þekkingariðnaðarins sem haldin var í Laugardalshöll í síðustu viku.``

Þar var ljósmyndari DV á ferðinni og smellti þessari skemmtilegu mynd af þeim. Ég get svo sem sýnt hv. þingmönnum þetta á eftir. En ég vona að þetta sé ekki rétta myndin af stöðu kvenna í íslenskum þekkingariðnaði.

(Forseti (ÁSJ): Má ég sjá?)

Hún er svona, herra forseti. Og þess vegna þurfum við m.a. að beina sjónum að yngstu börnunum og sjá til þess að upplýsingatæknin verði á allra færi, bæði stúlkna og drengja.