Kynbundinn munur í upplýsingatækni

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 18:27:51 (877)

2000-10-19 18:27:51# 126. lþ. 14.16 fundur 123. mál: #A kynbundinn munur í upplýsingatækni# þál., SÓ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[18:27]

Stefanía Óskarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Í ræðu minni gerði ég grein fyrir því að ég tæki undir flest það sem kæmi fram í greinargerð með þessari þáltill. og ég ítreka það hér. Ég sagði jafnframt að ég teldi ónauðsynlegt að skipa umrædda nefnd því mikið starf er nú þegar í gangi og að því starfi koma fjölmargir aðilar, ráðuneyti, fyrirtæki og stofnanir. Stjórnvöld hafa sýnt þessu verkefni sérstaklega mikinn velvilja og skilning og látið fé af hendi rakna, sem m.a. hefur verið notað til þess að ráða starfsmann í starf sem mun á næstu tveimur árum vera þessari verkefnisstjórn til ráðuneytis um ýmislegt sem betur má gera. Nú þegar hefur farið af stað starf sem miðar að því að ná til kvenna í háskólum, í framhaldsskólum og á grunnskólastigi og jafnframt til foreldra þeirra. Það má vel vera að leikskólar komi þar jafnframt inn í. Ég skal ekki segja um það.

Ég fagna því að hér hafi komið fram þessi þáltill., þ.e. að vakið hefur verið máls á þessu efni og ég óska eftir samstarfi við flutningsmenn þessarar tillögu. Ég læt þess kannski getið að ég sit í verkefnisstjórn þessa verkefnis og við erum einmitt að leita eftir víðtæku samstarfi við alla því hér er um mjög mikilvægt mál að ræða og mikilvægt er að sem flestir séu með í liði. Ég sé samt enga ástæðu til þess að þetta starf sé lokað inni í starfi í menntmrn.

Að lokum ætla ég að gera grein fyrir því að ég tala hér ekki í nafni menntmrn., heldur tala ég í nafni sjálfrar mín.