Þjóðarleikvangar

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 18:38:51 (883)

2000-10-19 18:38:51# 126. lþ. 14.14 fundur 106. mál: #A þjóðarleikvangar# þál., Flm. PM (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[18:38]

Flm. (Páll Magnússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þál. um þjóðarleikvanga. Tillagan er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela menntmrh. að beita sér fyrir setningu laga um byggingu þjóðarleikvanga.``

Á 121. löggjafarþingi var samþykkt till. til þál. um eflingu íþróttastarfs. Flm. tillögunnar voru hv. þm. Guðjón Guðmundsson, Hjálmar Árnason, Kristinn H. Gunnarsson, Kristín Ástgeirsdóttir, Lúðvík Bergvinsson, Árni Johnsen, Ísólfur Gylfi Pálmason, Árni M. Mathiesen, Magnús Stefánsson og Vilhjálmur Egilsson. Þessi ályktun var svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi áyktar að skora á ríkisstjórnina að skipa sjö manna nefnd til að gera tillögur um að efla íþróttahreyfinguna og um samskipti ríkisvalds og annarra opinberra aðila við hreyfinguna og stuðning við íþróttastarfið í landinu.

Markmið nefndastarfsins verði m.a. að skilgreina og gera tillögur um þátt hins opinbera í þeirri viðleitni íþróttahreyfingar að:

1. laða æskufólk, pilta og stúlkur, svo og almenning til iðkunar íþrótta,

2. efla árangur íslensks afreksfólks á alþjóðavettvangi,

3. auka skilning þjóðarinnar á gildi líkamsræktar, heilbrigðis og hollra lífshátta.

Nefndin verði skipuð tveim fulltrúum Íþróttasambands Íslands, einum frá UMFÍ, einum fulltrúa tilnefndum af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, einum tilnefndum af fjmrh., einum tilnefndum af heilbr.- og trmrh. og einum tilnefndum af menntmrh. og verði hann jafnframt formaður nefndarinnar. Nefndin skili skýrslu og tillögum eigi síðar en 1. nóvember 1997.``

Niðurstöður nefndarinnar komu fram í skýrslu í desember árið 1997. Nefndin lagði áherslu á þrjú atriði sem hún sagði geta skipt sköpum í allri framþróun og voru þau á sviðum barna- og unglingaíþrótta, afreksíþrótta og almenningsíþrótta. Á sviði afreksíþrótta var ein tillaga nefndarinnar þessi, með leyfi forseta:

,,Í öðru lagi þarf að vera til staðar öflug afreksmannastefna með þátttöku ríkisins til að skapa þá umgjörð sem þarf fyrir afreksíþróttafólk í landinu. Mikilvægt er að ríkið komi aftur inn í mannvirkjaþáttinn með því að styrkja sveitarfélög og sérsambönd í byggingu þjóðarleikvanga.

Skilgreining nefndar á orðinu þjóðarleikvangur er eftirfarandi:

,,Þjóðarleikvangur er íþróttaaðstaða sem tengist sérstaklega ákveðinni íþróttagrein. Hér er um íþróttamannvirki að ræða sem þegar er til staðar eða á eftir að reisa. Hver íþróttagrein sem hér á landi er stunduð fær því ,,fastan samastað`` eða þjóðarleikvang. Einkenni þessa staðar væri að þar væru fullkomnar aðstæður til keppni og æfinga viðkomandi greinar. Hér er því um löglegar aðstæður að ræða sem nota má til keppni á landsmótum eða mótum landa á milli, Evrópukeppni, heimsmeistarakeppni o.s.frv.````

Nefndin gerir því tillögu um að ríkið komi að byggingu þjóðarleikvanga í ýmsum íþróttagreinum. Um yrði að ræða samstarfsverkefni íþróttahreyfingarinnar, sveitarfélaga og ríkissjóðs. Markmiðið væri að hver íþróttagrein eignaðist einn þjóðarleikvang með fullkominni aðstöðu. Ljóst er að einn veigamesti þáttur þess að okkar besta íþróttafólk geti keppt um verðlaunasæti á alþjóðavettvangi er að það geti æft og keppt hér á landi við bestu mögulegu aðstæður.

Lengi hefur verið talað um aðstöðuleysi sundíþróttamanna og hugmyndir verið uppi um yfirbyggðar 50 metra keppnislaugar til lausnar þeim vanda. Líklegt má telja að innilaug til keppni væri löngu komin í gagnið ef ríkið tæki þátt í slíkri byggingu með sveitarfélögum. Vart er hægt að gera þær kröfur til sveitarfélaganna í landinu að þau leggi í aukinn kostnað við byggingu íþróttamannvirkja til að þau megi standast alþjóðlegan samanburð. Slíkt framlag þarf að koma frá ríkinu enda nýtast slík mannvirki afreksfólki hvaðan af landinu sem það er.

Á 125. löggjafarþingi lagði ég fyrir hæstv. menntmrh. nokkrar spurningar um tillögur nefndar um eflingu íþróttastarfs eins og áður er getið. Í svari hæstv. ráðherra kom fram að íþróttanefnd ríkisins hafði verið falið að gera tillögur um hvernig nefndarstarfinu yrði fylgt eftir. Í umsögn íþróttanefndar virðast hins vegar ekki koma fram neinar tillögur um útfærslu hugmyndarinnar um þjóðarleikvanga. Einnig var spurt hvort sveitarfélög hefðu kynnt ráðherra hugmyndina um þjóðarleikvang á grunni tillagna sem fram komu í skýrslu nefndarinnar.

Í svari hæstv. ráðherra kom fram að svo hefði ekki verið að því frátöldu að Reykjavíkurborg hefði kynnt áform um byggingu yfirbyggðrar sundlaugar í Laugardal.

Ég leyfi mér að benda á við umræðuna, herra forseti, að bæjaryfirvöld í Kópavogi hafa lýst vilja sínum til þess að reisa þjóðarleikvang í fimleikum í bænum á grundvelli tillagnanna sem fram komu í nefnd menntmrh. um eflingu íþróttastarfs. Í skipulagi bæjarins er gert ráð fyrir að reisa nýtt íþróttahús í Salahverfi við grunnskóla þar. Hefur Íþróttafélagið Gerpla lýst áhuga á að fytja starfsemi sína í þetta nýja íþróttahús en Gerpla, sem er að uppistöðu fimleikafélag, býr nú við þröngan kost í gömlu iðnaðarhúsnæði.

Ef þær tillögur, sem eru ræddar hér, ná fram að ganga gæfist kostur á að byggja sérhannað fimleikahús í samvinnu íþróttahreyfingar, sveitarfélags og ríkisvalds. Í því fælist gríðarlegur stuðningur við fimleikaíþróttina í landinu. Rétt er að benda á að eini fulltrúi Íslendinga í fimleikum á síðustu Ólympíuleikum stundar æfingar sínar erlendis vegna aðstöðuleysis hér á landi.

Rúm tvö ár eru síðan Kópavogsbær lýsti vilja sínum til samstarfs um byggingu þjóðarleikvangs í fimleikum.

Fámenn þjóð eins og okkar getur ekki byggt upp aðstöðu á mörgum stöðum á landinu sem uppfyllir alþjóðlegar kröfur í ólíkum íþróttagreinum. Því er réttast að ríkið komi að þeirri uppbyggingu. Í fyrsta lagi með því að velja úr þá staði hvar þjóðarleikvangar verða staðsettir. Augljóst má vera að mannvirki líkt og Laugardalsvöllur sem þegar hafa verið uppbyggð verða skilgreind þjóðarleikvangar, að völlurinn verði til að mynda þjóðarleikvangur í knattspyrnu og frjálsum íþróttum. Frekari uppbygging við aðstöðuna yrði þó fjármögnuð að hluta með framlögum úr ríkissjóði.

Herra forseti. Það yrði íþróttastarfi í landinu mikil lyftistöng ef tillögur um eflingu íþróttastarfs er varðar byggingu þjóðarleikvanga næðu fram að ganga. Víst má telja að þátttaka ríkisins í byggingu þeirra mannvirkja mundi ráða miklu um hvort sveitarfélög treystu sér til þess að reisa mannvirki sem uppfylli alþjóðakröfur einstakra og ólíkra íþróttagreina.

Því er lagt til með þessari þáltill. að menntmrh. verði falið að beita sér fyrir lagasetningu um byggingu þjóðarleikvanga.

Herra forseti. Ég óska eftir því að tillögunni verði vísað til hv. menntmn. að loknum þessum umræðum.