Þjóðarleikvangar

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 18:44:56 (884)

2000-10-19 18:44:56# 126. lþ. 14.14 fundur 106. mál: #A þjóðarleikvangar# þál., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[18:44]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Örstutt. Ég vil í fyrsta lagi þakka hv. flm. Páli Magnússyni fyrir að hreyfa þessu máli og raunar öðrum skyldum. Tillaga hans snýr fyrst og síðast að byggingu þjóðarleikvanga. Það er út af fyrir sig mál sem ástæða er til að hreyfa fram á veg og sannarlega nefndi hann til sögunnar þá staðreynd, sem við okkur blasir, að yfirbyggð 50 m sundhöll er ekki til staðar hér á landi og er löngu orðið brýnt að bæta þar úr. Fleiri íþróttagreinar mætti nefna til sögu sem geta ekki í raun boðið upp á þær aðstæður sem mundu gera sig á alþjóðlegum vettvangi og á alþjóðlegum mótum. Þetta er því hið besta mál.

[18:45]

Ég stend hins vegar fyrst og síðast upp til að undirstrika það sem fram kom í ágætri yfirferð flutningsmanns á þeirri staðreynd að ekkert hefði verið gert með þá niðurstöðu sem nefnd menntmrh. frá 1997 komst að um stóreflingu íþróttastarfs í landinu og þá ekki síst hvað lýtur að þátttöku æskufólks í þeim efnum. Það er til vansa hversu hið opinbera, þá á ég við ríkisvaldið, kemur í litlum mæli að þessum málaflokki með beinum fjárframlögum. Þetta hefur sannarlega verið að miklu leyti verkefni einstakra sveitarfélaga en ríkisvaldið hefur meira og minna verið stikkfrí í þessum efnum og látið sveitarfélögum það eftir að langmestu leyti að leysa úr þeim viðfangsefnum sem þar við blasa. Íþróttanefnd hefur úr litlum fjármunum að spila, íþróttasjóður sömuleiðis, og er löngu kominn tími til að menn taki sér tak í þessum efnum og kalli ríkisvaldið til ábyrgðar og þátttöku í uppbyggingu íþróttastarfs í landinu.

Nýverið sá ég í blöðum að menntmrh. hafði skipað sérstaka nefnd til að gera úttekt og tillögur um sérstakan afreksmannasjóð í kjölfar góðs árangurs á Ólympíuleikum. Það er svo sem allt gott og blessað. Auðvitað var sú nefnd skipuð, eins og venja er til á síðustu og verstu tímum í tíð þessarar ríkisstjórnar, tveimur þingmönnum stjórnarliðsins og síðan fulltrúum frá Íþróttasambandi Íslands og viðkomandi ráðuneyti. Það þurfti ekkert á stjórnarandstöðunni að halda í því frekar en fyrri daginn og það er gagnrýnivert út af fyrir sig.

Ég hefði hins vegar kosið að sjá líka aðra nefndarskipan sem hefði að markmiði að leggja fram tillögur beint hvernig og í hversu miklum mæli ríkisvaldið ætti að leggja íþróttastarfi lið almennt og þá ekki síst því sem lýtur að rekstri íþróttafélaga og æskulýðsstarfs á þeirra vegum á þessum síðustu og verstu tímum. Allir þekkja sem nærri koma að rekstur íþróttafélaga er æðikostnaðarsamur. Flest þeirra berjast í bökkum, njóta í mörgum tilfellum einhverra styrkja og stuðnings frá viðkomandi sveitarfélagi, heimahéraði sínu, í ýmsum tilfellum frá velviljuðum atvinnufyrirtækjum, en ríkissjóður situr eftir. Á þessu þarf að verða breyting.