Einkarekstur í heilbrigðisþjónustu

Mánudaginn 30. október 2000, kl. 15:11:10 (897)

2000-10-30 15:11:10# 126. lþ. 15.1 fundur 61#B einkarekstur í heilbrigðisþjónustu# (óundirbúin fsp.), BH
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 126. lþ.

[15:11]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég vek athygli á að þessi áhugi sem ég ræddi um snýst um einkarekið sjúkrahús sem veita mundi stóru sjúkrahúsunum í Reykjavík samkeppni. Ég skil svör hæstv. ráðherra þannig að hún mundi ekki telja líklegt eða koma til greina að veita starfsleyfi fyrir slíku sjúkrahúsi. Ég tel mikilvægt að fá það skýrt hver sé stefna ríkisstjórnarinnar, einmitt vegna þess að við höfum orðið vör við mikinn ágreining milli ríkisstjórnarflokkanna í þessum efnum. Það heyrast háværar kröfur frá Sjálfstfl. um að auka eigi einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu á meðan Framsfl. hefur frekar staðið á bremsunni. Ég lít svo á að hæstv. ráðherra hafi lýst því yfir hér að ólíklegt sé að hún mundi gefa út starfsleyfi fyrir einkarekið sjúkrahús.