Löggæsla á Akranesi og í Borgarnesi

Mánudaginn 30. október 2000, kl. 15:16:39 (901)

2000-10-30 15:16:39# 126. lþ. 15.1 fundur 62#B löggæsla á Akranesi og í Borgarnesi# (óundirbúin fsp.), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 126. lþ.

[15:16]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég er ekki mjög ánægður með þessi svör. Mér finnst að hæstv. ráðherra þurfi að beita eigin ráðum til að koma á breyttu skipulagi þarna. Hægt er að fara margar leiðir að því. Hægt væri að sameina lögsagnarumdæmi þessara sýslumanna. Hægt væri að stækka lögsagnarumdæmi Akranessýslumannsins þannig að hann hefði yfir því svæði að segja sem nær frá Hvítá og í Hvalfjarðarbotn. Það væri miklu eðlilegri skipting. Einnig væri hægt að gera aðrar skipulagsbreytingar eins og að setja einn sýslumann yfir allt Vesturland þannig að menn gætu stjórnað löggæslumálum eðlilega á öllu svæðinu. Mér heyrist ekki að hæstv. ráðherra sé að gera neitt í þessu. Þó að einhverjir oddvitar á þessu svæði hafi kannski haft athugasemdir og ekki verið hrifnir af þeim tillögum sem hæstv. ráðherra lagði fram er engin ástæða til að gefast upp í málinu. Það er fráleitt að þetta ráða- og úrræðaleysi sem hefur verið í mörg ár á þessu svæði skuli halda áfram ár eftir ár.