Gengisþróun íslensku krónunnar

Mánudaginn 30. október 2000, kl. 15:25:10 (909)

2000-10-30 15:25:10# 126. lþ. 15.1 fundur 63#B gengisþróun íslensku krónunnar# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 126. lþ.

[15:25]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég held að það sé ákaflega óskynsamleg taktík sem hæstv. ríkisstjórn hefur tamið sér þegar rætt er um augljós veikleikamerki í efnahagsstjórnun eða hvað varðar viðskiptahalla eða annað slíkt að neita alltaf tilvist vandamálsins. Það er það sem hér er ævinlega gert. ,,Það er ekkert tilefni um þessar mundir, engin ástæða til að hafa áhyggur.`` Hæstv. forsrh. hefur farið með sömu tugguna gagnvart verðbólgunni í eitt og hálft ár. Hún er alltaf alveg að hverfa. Það er bara handan við hornið að verðlagið hjaðni niður og hverfi. Hér kemur líka hæstv. fjmrh. og fer með sömu þuluna: Það er ekkert vandamál, það er engin ástæða til þess að gera neitt.

Þetta eru ekki trúverðug viðbrögð. Skylda stjórnvalda við þessar aðstæður er að reyna að róa menn og fullvissa þá um að hlutirnir séu undir góðri og styrkri stjórn. Það gera menn ekki með þessum aðferðum. Þess vegna væru skynsamlegri svör hjá hæstv. fjmrh. en að reyna að snúa út úr eða kenna þeim sem hér stendur þingleg vinnubrögð að reyna að útlista fyrir okkur í einhverju málefnalegu svari hvað ríkisstjórnin sé að gera til að halda þessum hlutum í traustum skorðum.