Fráveitumál sveitarfélaga

Mánudaginn 30. október 2000, kl. 15:26:32 (910)

2000-10-30 15:26:32# 126. lþ. 15.1 fundur 64#B fráveitumál sveitarfélaga# (óundirbúin fsp.), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 126. lþ.

[15:26]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Þegar við gerðumst á sínum tíma þátttakendur í Evrópska efnahagssvæðinu tókumst við á hendur margvíslegar skyldur í umhverfismálum. Þar á meðal var að gera stórátak í fráveitumálum sveitarfélaga. Sveitarfélögin standa því mörg hver frammi fyrir ákaflega dýrum verkefnum á sviði fráveitukerfa og skolpmannvirkja til að hreinsa skolp og leiða það á haf út. Allar áætlanir gera ráð fyrir að hér sé um að ræða mjög miklar upphæðir.

Ég nefni sem dæmi, herra forseti, að á Bolungarvík, þar sem aðeins 1.000 manns búa, er áætlað að þetta kosti um 150 millj. kr., á Tálknafirði um 60 millj. kr., á Hólmavík um 60 millj. kr. og á Siglufirði um 180--190 millj. kr. Það er því alveg ljóst að til að leysa þetta mikla verkefni af höndum er líklegt að sveitarfélögin þurfi að axla byrðar sem kunna að hlaupa á milljörðum króna.

Nú blasir hins vegar við að starfsmenn Náttúrustofu Vestfjarða í samvinnu við heilbrigðiseftirlitið á Vestfjörðum hafa gert ákaflega merkilega rannsókn þar sem þeir könnuðu mengun við átta byggðarlög á norðausturströndinni. Þarna var um að ræða mælingar bæði á gerla- og efnamengun auk þess sem smádýralíf á botni var líka kannað. Samkvæmt þessum niðurstöðum, sem ég tel enga ástæðu til að rengja, kom í ljós að á öllum þessum stöðum var sjólag með þeim hætti að talið var líklegt að blöndun væri svo mikil að öll mengun mundi hverfa innan nokkurra metra. Þetta bendir til þess, herra forseti, að hægt sé að leysa fráveitumál fjölmargra smærri sveitarfélaga miklu ódýrar en menn töldu áður og ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. umhvrh.:

1. Í ljósi þess að hér var um að ræða rannsókn sem náði til átta staða finnst hæstv. ráðherra þá ekki góður kostur að hefja þegar í stað rannsókn á öðrum byggðarlögum við Ísland?

2. Telur hún ekki rétt að hefja þegar í stað viðræður við þar til bær stjórnvöld innan Evrópska efnahagssvæðisins um að heimilt verði að ganga frá fráveitumálum sveitarfélaga með mun ódýrari hætti í ljósi þessara nýju upplýsinga sem nú liggja fyrir?