Flutningur á fjarvinnslustörfum út á land

Mánudaginn 30. október 2000, kl. 15:34:08 (916)

2000-10-30 15:34:08# 126. lþ. 15.1 fundur 65#B flutningur á fjarvinnslustörfum út á land# (óundirbúin fsp.), KLM
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 126. lþ.

[15:34]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Við umræðu á hinu háa Alþingi nú nýlega í tengslum fyrirspurn frá hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur um flutning fjarvinnsluverkefna út á land, m.a. til Ólafsfjarðar, vitnaði ég í ummæli hæstv. iðnrh. Valgerðar Sverrisdóttur sem hún viðhafði eftir borgarafund í Ólafsfirði 6. mars sl. Þar sagði hún m.a. með leyfi forseta:

,,Í lok þessa mánaðar eða fyrir lok þessa mánaðar þá trúi ég því að það verði eitthvað að frétta ...`` --- af þessu verkefni.

Svar hæstv. ráðherra við þessari fyrirspurn minni var svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,En af því að ég er spurð um það svona u.þ.b. einu sinni á dag hvað sé að frétta af þessu síðan í mars þá held ég að ég verði að fara að greina eitthvað nánar frá því. Það sem ég var að tala um á fundinum í Ólafsfirði var landskrá lausafjármuna sem var verkefni og er verkefni sem búið er að móta og er til umfjöllunar í dómsmrn. Það verður að spyrjast fyrir um það þar.``

Herra forseti. Ég vil því taka áskorun hæstv. iðn.- og viðskrh. og spyrja hæstv. dómsmrh. út í þetta atriði með landskrá lausafjármuna sem búið er að móta og vinna í iðnrn. að sögn hæstv. iðnrh. en hefur legið ansi lengi í dómsmrn. að því er mér virðist.

Hver er staða þessa máls í dómsmrn. í dag, hæstv. dómsmrh.?

Verður þetta verkefni flutt til Ólafsfjarðar og þá hvenær?