Flutningur á fjarvinnslustörfum út á land

Mánudaginn 30. október 2000, kl. 15:37:26 (918)

2000-10-30 15:37:26# 126. lþ. 15.1 fundur 65#B flutningur á fjarvinnslustörfum út á land# (óundirbúin fsp.), KLM
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 126. lþ.

[15:37]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Mér fannst svar hæstv. dómsmrh. vera á þá leið að þetta hafi litið vel út og hafi frá hendi iðnrh. virst stórkostlegt verkefni sem mætti flytja til Ólafsfjarðar, en svo hafi komið í ljós að þetta er í mesta lagi hálft starf. Það er kannski af svipaðri ástæðu sem hæstv. forsrh. hefur ekki enn getað svarað annarri fyrirspurn minni um það hversu mörg störf hafi verið flutt til landsbyggðarinnar á síðasta ári, en það er búið að taka um það bil sex mánuði að fá svar við því.

Ég vil í lokin, herra forseti, vitna í dæmigerð ummæli sem viðhöfð eru af ráðherrum á tyllidögum eins og eftir umræddan borgarafund í Ólafsfirði. En þar sagði hæstv. forsrh. m.a.:

,,Ég tel að þessi vinna sem einkum hinir fjórir ráðuneytisstjórar hafa komið að sé í góðum farvegi. Þó að ég vilji ekki tímasetja á þessu augnabliki nákvæmlega hvenær starfsemin geti hafist, þá er vinnan komin vel af stað og ákvörðun af því tagi hefur því verið tekin.``

Mér virðist, herra forseti, að frá hendi dómsmrh. sé skilað auðu.