Almannatryggingar

Mánudaginn 30. október 2000, kl. 16:33:19 (940)

2000-10-30 16:33:19# 126. lþ. 15.16 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 126. lþ.

[16:33]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir margt af því sem hv. síðasti ræðumaður sagði. Þó er eitt sem ég tel rétt að draga fram. Ég tel að það muni líða a.m.k. 10--20 ár þangað til sumir hópar launþega fái þann lífeyrisrétt sem muni duga. Það liggur m.a. í því að t.d. íslenskir sjómenn, ef þeir hafa ekki verið hátekjumenn frá 1985, því þá byrja þeir að greiða í lífeyrissjóð hlut af öllum launum sínum og af fullum launum 1987, eru aðeins búnir að greiða í lífeyrissjóð af fullum launum í 13 ár, það er ekki lengra síðan. Almennt er talið að menn þurfi að greiða í lífeyrissjóð í um 35--40 ár til að ná viðunandi lífeyrisréttindum.

Sama á auðvitað við um bændur og heimavinnandi húsmæður eins og þingmaðurinn nefndi réttilega hér áðan. Þess vegna vil ég bara láta það koma fram að það verða ábyggilega til hópar í þjóðfélagi okkar næstu 10--15 ár og jafnvel 20 ár sem ekki munu, þrátt fyrir þá framtíðarsýn okkar að lífeyririnn komi til með að duga fólki, hafa ásættanlegan lífeyri. Þess vegna þarf sérstaklega að huga að þeim hópi, þ.e. öryrkjum og hluta ellilífeyrisþega. Ég held að því miður verði ákveðinn hópur áfram í slæmri stöðu, alveg fram undir 2020, þó sá hópur fari vonandi minnkandi.