Almannatryggingar

Mánudaginn 30. október 2000, kl. 16:37:29 (942)

2000-10-30 16:37:29# 126. lþ. 15.16 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., BH
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 126. lþ.

[16:37]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Eins og fram kom fyrr í dag er með þessu frv., sem hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og raunar allir þingmenn Samfylkingarinnar leggja fram, lagt til að tekjutenging tekjutrygginga lífeyrisþega við tekjur maka þeirra verði afnumin og að tekjutengingin einskorðist við tekjur lífeyrisþeganna sjálfra. Ég tel rétt að vekja athygli á þessu í upphafi vegna þess að umræðan hefur snúist upp í það og því hefur jafnvel verið haldið fram að hér sé verið að leggja til afnám allra tekjutenginga í almannatryggingakerfinu. Það er svo sannarlega ekki það sem við leggjum til með þessu frv. Ég tel mjög mikilvægt að það komi fram hér strax í upphafi máls míns.

Frv. beinist fyrst og fremst að þeim hópi sem tengdur er við tekjur maka og það viljum við afnema. Við höfum lagt fram fyrir því réttlætisrök. Við höfum bent á það að sú framkvæmd er ekki mjög dýr miðað við þann kostnað sem þjóðfélagið er tilbúið að greiða fyrir gott almannatryggingakerfi. Við höfum bent á að þetta kosti 360 millj. og þá erum við að tala um tölur sem eru fengnar áður en síðasta leiðrétting var gerð þar sem ríkisstjórnin kom í raun og veru til móts við þessa kröfu. Sennilega er því um töluvert lægri fjárhæð að ræða.

Við teljum því að hér sé um að ræða mjög mikið réttlætismál sem kosti kannski ekki svo mikla peninga þegar upp er staðið. Þess vegna eigum við í Samfylkingunni mjög erfitt með að skilja að ekki sé hægt að koma til móts við þennan hóp. Við höfum bent á að sú stefna sem mótuð er með því að hafa tengingu við tekjur maka sé til þess fallin að brjóta upp fjölskyldur og við þekkjum mörg dæmi þess að fólk sér þann kost vænstan að skilja til að losna við þessa tengingu. Við höfum líka bent á að það er réttlætismál að sá sem ekki getur séð sér farborða með því að vinna fyrir sér fái lágmarksframfærslu úr sameiginlegum sjóðum velferðarkerfisins.

Til samanburðar höfum við nefnt að t.d. þeir sem eru atvinnulausir fá greiddar atvinnuleysisbætur óháð tekjum maka en það sama gildir ekki um lífeyrisþegana. Við höfum vakið athygli á fleiri atriðum sem snúa að fjölskyldum öryrkja, þá erum við að tala um þennan þrönga hóp sem er tiltölulega illa settur. Það er fleira í þessu kerfi sem gerir mörgum öryrkjum mjög erfitt fyrir að búa við fjölskyldulíf, ekki aðeins það að þeir séu háðir framfærslu maka með þeim ákvæðum hér sem við erum að leggja til að verði breytt. Þeir sem þurfa t.d. að fara af heimilinu og leita annað eftir betri þjónustu vegna sjúkdóms verða líka fyrir tekjutapi þannig að þeir eiga í raun og veru ekkert eftir fyrir fjölskyldu sína. Oft á tíðum neyðist þetta fólk til þess að fara þangað sem það fær betri þjónustu og þarf meiri umönnun vegna sjúkdóms síns. Þannig er margt í þessu sem þarf að skoða, herra forseti, en hér erum við fyrst og fremst að horfa á tekjutenginguna.

Ákvæði þessarar skerðingarreglu hafa í för með sér að fjölskyldur lífeyrisþega lenda í fátæktargildru jaðarskattanna þar sem tekjur maka auk tekna lífeyrisþegans sjálfs geta skert tekjutryggingu hans. Á þennan hátt er lífeyrisþegum í raun mismunað eftir hjúskaparstöðu líka, ef maður horfir á þetta út frá þeim sjónarhóli. Það má líka segja að fólki á vinnualdri sé mismunað eftir því hvort það á við atvinnuleysi eða heilsubrest að stríða. Við viljum halda því fram að þetta sé ekki í anda stjórnarskrárinnar, mannréttindaákvæða stjórnarskrárinnar, enda hefur verið höfðað mál í þá veru af hálfu öryrkja.

Í bók Stefáns Ólafssonar prófessors, Íslensku leiðinni, sem fjallar um íslenska velferðarkerfið segir hann í kafla um þessa tekjutengingu, með leyfi forseta:

,,Þá er önnur beiting skerðingarreglna í almannatryggingakerfinu á Íslandi einnig fátíð en það er skerðing lífeyris öryrkja vegna tekna maka þeirra. Sú regla er arfleifð gömlu fátækraaðstoðarinnar frá fyrri öldum, þar sem framfærsluskylda var lögð á fjölskylduna eða ættingja í heild, áður en til fátækraaðstoðar gæti komið með tilheyrandi athugun á þörf og því hvort hinn fátæki verðskuldaði aðstoðina.

Hugmyndafræði almannatrygginga, sem leysti gömlu fátækraaðstoðina að mestu af hólmi á 20. öldinni, gengur gegn þessari hugsun að örorkulífeyrisþegi hafi ekki fullan borgararétt og beri skarðan framfærslurétt ef maki hans hefur einhverjar tekjur, eins og fram kom í fyrstu tveimur köflunum í þessari bók. Þess vegna hafa vestrænar þjóðir horfið frá slíkri framkvæmd almannatrygginga nú á dögum. Framkvæmd þessarar reglu á Íslandi rýrir mjög kjör þeirra öryrkja sem fyrir verða, samkvæmt mati OECD á kjarastöðu lífeyrisþega í aðildarríkjunum og það kemur einnig fram í skýrslu forsætisráðherra vorið 1999 um stöðu öryrkja. En félagsleg og sálræn áhrif slíks fyrirkomulags eru þó enn alvarlegri því öryrki í slíkri stöðu er að hluta rændur sjálfstæði sínu og mannlegri reisn.``

Þetta segir Stefán Ólafsson prófessor í bók sinni Íslensku leiðinni sem er úttekt á íslenska velferðarkerfinu.

Nú hefur því verið mótmælt af hálfu einstakra ráðherra og fleiri aðila, m.a. kom þetta fram í viðtali í Morgunblaðinu fyrir skömmu síðan að þetta væri ekki alveg rétt og að víða væru þessar tekjutengingar við tekjur maka viðhafðar. Ég hef aðeins verið að reyna að átta mig á því hvað sé rétt í þessu og hef gögn um það undir höndum. Maður rekur sig fljótt á það þegar maður fer að reyna að bera þessa hluti saman að í raun er afar erfitt að bera saman slík kerfi, ef við tökum t.d. kerfi hér og í Danmörku. Ég held að til þess að önnur kerfi séu marktæk viðmiðun þá sé mjög mikilvægt að horfa á samanburðinn í heild.

Það vantar svolítið upp á að aðbúnaður og kjör öryrkja hafi verið skoðuð af einhverju viti í samanburði við Norðurlöndin. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir bað um skýrslu á sínum tíma, sem lögð var fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi, af forsrh., um stöðu, aðbúnað og kjör öryrkja. Þar kemur fram ákveðinn samanburður og það sem er sláandi í þeim samanburði er kannski fyrst og síðast hve erfitt er að bera svona kerfi saman. Það er mismunandi hversu mikið lífeyriskerfið kemur inn í, hvort það er í raun grunnurinn, þ.e. almannatryggingarnar, hversu mikið þær koma inn í o.s.frv.

[16:45]

Ég held að það sé ágætt að rifja upp þá skýrslu í tengslum við þessa umræðu og það er mjög mikilvægt í fyrsta lagi, þegar verið er að bera saman hvort við séum að nota tekjutengingu á borð við það sem notað er annars staðar, hvort um grunninn sé að ræða eða hvort um viðbótarframlög sé að ræða, þ.e. þegar við erum að tala um tekjutengingu við tekjur maka. Mér finnst það skipta miklu máli.

Það skiptir líka máli í því samhengi hvort við erum að tala um svipuð framlög frá velferðarkerfinu til þessara hópa. Ég er hér með samanburð upp úr þessari skýrslu sem forsrh. lagði fram um kjör og aðbúnað öryrkja. Þar kemur fram ef við berum saman Ísland og Danmörku að grunnlífeyrir og tekjutrygging á Íslandi --- þetta er væntanlega 1998 geri ég ráð fyrir eftir samnorrænum samanburðartölum --- þá erum við að tala um að grunnlífeyrir og tekjutrygging sé samtals á Íslandi 39.988 kr. en í Danmörku á sama ári 69.728 kr. Þarna munar nú bara upp undir helmingi á þessu tvennu. Það hlýtur vissulega að hafa ýmislegt að segja auk þess sem það er þá ekki búið að taka inn í það hvort auðveldara sé fyrir öryrkja hér á landi eða í Danmörku að afla sér t.d. húsnæðis eða hvernig búið sé að þeim varðandi slíka hluti, að ekki sé nú talað um innkaup á matvöru o.s.frv. og verðlag almennt.

Í þessari skýrslu um slíkan samanburð segir m.a. að þótt greina megi ákveðinn líkindi með lífeyriskerfum Norðurlanda sé fjölmargt sem skilji á milli. Nefna má að í Danmörku eru örorkugreiðslur einvörðungu frá almannatryggingum, í Noregi er engin tekjutenging, en aftur eru reglur í Finnlandi þannig að þegar örorkulífeyrir frá lífeyrissjóði fer yfir ákveðið mark, falla örorkugreiðslur almannatrygginga alveg niður. Og það er sagt að hér sé afar vafasamt að bera saman fjölda þeirra sem fá óskertar bætur á Norðurlöndum.

En það er þess vegna sem ég held að það sé mikilvægt fyrst og fremst að horfa bara á stöðu þessara einstaklinga og hvernig þeir hafa það í heildina litið þegar upp er staðið hvernig þeim gengur að lifa af því sem þeir hafa á milli handanna. Það verður að skoða þetta þannig. Og það væri mjög æskilegt að gerð yrði frekari úttekt á þessu og slíkur samanburður yrði framkvæmdur af einhverju viti og þá yrðu teknir fyrir þeir hópar fyrst og fremst sem þurfa úrbætur t.d. hér á landi, þ.e. þeir sem búa við almannatryggingakerfið berstrípað.

Við vitum að lífeyriskerfið hefur bjargað miklu í okkar velferðarkerfi. En það gengur bara ekki að koma alltaf með meðaltal sem miðar við þá sem hafa verið á vinnumarkaði, vegna þess að það eru nú einhverjir sem hafa bara ekkert verið á vinnumarkaði, en verða samt sem áður öryrkjar.

Í skýrslu hæstv. forsrh. um kjör og aðbúnað öryrkja, varðandi töfluna sem ég nefndi hér áðan þar sem verið er að bera saman fjárhæðirnar sem öryrkjar á Íslandi og Norðurlöndunum fá, segir m.a., með leyfi forseta:

,,Taflan gefur ekki góða mynd af stöðu öryrkja í þessum löndum. Ástæða þess er fyrst og fremst sú hversu mikill munur er á uppbyggingu lífeyriskerfa og þá einkum er varðar þátt almannatrygginga annars vegar og lífeyrissjóða hins vegar. Til þess að bera saman þessi lífeyriskerfi er nauðsynlegt að setja fram ,,dæmigerð tilvik``, sem sýna hvernig kerfin starfa nú.

Dæmi um Ísland er unnið þannig`` --- þá kemur önnur tafla síðar þar sem samanburðurinn er óneitanlega hagstæðari Íslendingum --- ,,að gert er ráð fyrir að maður afli meðallauna (um 125 þús. kr.) frá tvítugu til fimmtugs og hann verði þá öryrki. Gert er ráð fyrir að hann hafi greitt af þessum launum í lífeyrissjóð samkvæmt þeim reglum er í gildi voru hjá almennu lífeyrissjóðunum 1996.``

Síðan er lýst nákvæmlega hvernig þetta meðaltalsdæmi er reiknað og þá verður samanburðurinn mun hagstæðari fyrir Ísland. En þarna erum við nú bara að tala um að maður hafi verið á vinnumarkaði í 30 ár og það náttúrlega tryggir honum ákveðinn rétt eins og við vitum ef hann greiðir í lífeyrissjóð. En við erum fyrst og fremst að einbeita okkur að þeim hópum sem búa ekki við þau fríðindi að hafa getað verið á vinnumarkaði í 30 ár. Þeir hópar eru til og við verðum að skoða þá svolítið sérstætt og horfa svolítið einangrað á þá hópa sem eru verst settir.

Í skýrslunni sem hæstv. forsrh. lagði fram að beiðni hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, segir líka um áform ríkisstjórnarinnar um að treysta hag og aðbúnað öryrkja, með leyfi forseta:

,,Bótakerfi landsmanna er flókið í uppbyggingu og getur leitt til ósamræmis og getur fólk í sams konar aðstöðu fengið mismunandi bætur. Á næstu árum er mikilvægt að einfalda kerfið og gera það þá skiljanlegra fyrir almenning og þá sérstaklega þá sem það er ætlað. Þeir sem þurfa á stuðningi samfélagsins að halda eiga að hafa greiðan aðgang að slíkri þjónustu. Ljóst þarf að vera hvaða þjónusta er í boði. Það á ekki að leggja á þá einstaklinga sem í hlut eiga mikla og oft flókna vinnu til að fá notið þess sem þeim er ætlað. Tryggja verður jafnræði allra öryrkja.``

Herra forseti. Það er einmitt þetta sem við erum að reyna að draga fram og viljum því leggja lóð okkar á vogarskálar þessa markmiðs ríkisstjórnarinnar. En því miður teljum við að ekki hafi sést mikið af þessum markmiðum. Kerfið er gríðarlega flókið. Það er mjög óljóst vegna þessara tekjutenginga og sérstaklega við tekjur maka er fólk í raun að átta sig á stöðu sinni fjárhagslega þegar það er komið í þær aðstæður sem það getur ekki losað sig út úr. Ég held að margir hverjir átti sig ekki á því hvernig kerfið virkar fyrr en þeir lenda í þessari aðstöðu og eiga þá engin úrræði.

Ég vil líka draga fram í lokin, herra forseti, að því hefur oft verið haldið fram í umræðunni hér um þetta mál og önnur sem tengjast hag öryrkja eða lífeyrisþega almennt, að lífeyrisþegar hafi fengið miklar úrbætur í tíð þessarar ríkisstjórnar og kaupmáttur þeirra hafi aukist og það kemur m.a. fram í þessari skýrslu sem ég hef nefnt hér margoft og víðar í umræðunni. En ég var rétt í svipinn áðan að glugga í staðtölur almannatrygginga frá árinu 1999 sem voru að koma á borð þingmanna nú nýverið og þar er á bls. 26 er samanburður á vísitölu kaupmáttar lágmarkskaups verkakarla og lífeyristryggingagreiðslna, lífeyris- og tekjutryggingar á árunum 1987--1999. Þar get ég nú ekki betur séð, herra forseti, en að á síðustu u.þ.b. fimm árum hafi mjög dregið í sundur eins og við þingmenn Samfylkingarinnar höfum margoft haldið fram, að lífeyrisþegar hafi komið illa út í samanburðinum miðað við hvað kaupmáttur annarra hefur aukist. Það kemur skýrt hér fram á línuriti. Það hefur örlítið dregið saman aftur á árunum 1998 og 1999, en á tímabili, árin þar á undan, kannski frá 1994--1995, er mjög sláandi hversu bilið hefur síðan þá verið að breikka á milli annars vegar þeirra sem eru á launum og hins vegar lífeyrisþega.

Ég sé ekki betur, herra forseti, en að opinberar tölur ríkisstjórnarinnar sjálfrar væntanlega, sanni og staðfesti það sem haldið hefur verið fram um kjör lífeyrisþega á síðustu árum og í tíð þessarar hæstv. ríkisstjórnar.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni. Ég ítreka einungis að hér er um að ræða mikið réttlætismál, mikið mannréttindamál sem kostar ekki svo mikla peninga ef við horfum til þeirra fjárhæða sem við erum tilbúin að greiða með glöðu geði til þess að halda hér uppi öflugu velferðarkerfi á Íslandi.